Birkiþéla er nú farin að herja á birkitré á Akureyri en birkikembulirfurnar virðast vera búnar að um…
Birkiþéla er nú farin að herja á birkitré á Akureyri en birkikembulirfurnar virðast vera búnar að umbreytast í fiðrildi og horfnar úr trjánum. Hér er birkiþélulirfa í laufblaði birkitrés á Akureyri 10. júlí. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Nú er sumarið að ná hámarki og lífkerfið á fullri ferð. Þetta á þar með líka við skaðvaldana sem herja á tré og runna. Líkt og fyrri ár óskar Skógræktin eftir upplýsingum frá almenningi um skaðvalda á trjám um allt land og sömuleiðis um almennt ástand skóga, svo sem áhrif tíðarfars eða einstakra óveðra.

Rannsóknasvið Skógræktarinnar safnar upplýsingum um ástand skóga landsins og óskar nú eftir því að fólk sendi upplýsingar, sérstaklega ef sést til óværu á trjánum. Sérstaklega er fólk beðið að hafa augun opin fyrir áhrifum veðráttunnar í vor á trén í nágrenni sínu og eins fyrir nýjum pestum í mismunandi landshlutum, en skaðvaldar eins og til dæmis asparglytta, birkikemba og birkiþéla virðast nú vera að dreifa sér hratt um landið. Asparglytta herjar á aspir og víðitegundir en birkikemba og birkiþéla aðallega á birkitegundir en einnig skyldar tegundir eins og elri. Þótt birkikemba og birkiþéla séu óskyldar lífverur hegða þær sér með svipuðum hætti, verpa eggjum í laufblöð og svo vaxa lirfur þeirra upp milli laga innan í laufblöðunum. Birkikemba herjar á trén fyrri hluta sumars en birkiþéla seinni part sumarsins. Tré geta orðið mjög hart leikin, ekki síst ef báðar tegundirnar eru á sömu trjánum.

Myndir vel þegnar

Laufblað með ummerkjum eftir birkikembufiðrildi. Þekkja má á dritinu úr lirfunum hvort á ferðinni er lirfa birkikembu eða birkiþélu. Birkikembulirfa lætur frá sér þráðlaga drit en lirfa birkiþélu örsmáar dritkúlur. Ljósmynd: Pétur HalldórssonMeð upplýsingum um skaðvalda mega gjarnan fylgja ljósmyndir. Þær geta verið mjög gagnlegar til að staðfesta greiningar. Allar myndir eru vistaðar í gagnagrunni þar sem fram kemur hver tók myndina. Gengið er út frá því að myndir sem sendar eru megi nota í fyrirlestrum (þar sem ljósmyndara er getið) en ef vilji er til að nota þær til birtingar á vefnum eða í útgefnum ritum verður óskað sérstaklega leyfis til þess. Gott er að fólk láti vita ef það óskar þess að myndirnar séu ekki notaðar opinberlega.

Gagnlegt fræðsluefni

Til aðstoðar við greiningar er hér fyrir neðan hlekkur á stutta samantekt sem Edda Sigurdís Oddsdóttir, skógvistfræðingur og sviðstjóri rannsóknasviðs, tók saman fyrir fáeinum árum og hefur að geyma myndir af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám hérlendis. Samantektin er að miklu leyti byggð á upplýsingum af vef Náttúrufræðistofnunar (Pöddur - ni.is) en þar er líka fróðlegur vefur um pöddur í náttúrunni sem gott er að skoða til að glöggva sig á hvaða skaðvaldur er á ferðinni hverju sinni. Einnig er vert að benda á skaðvaldavefinn hér á skogur.is.

Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur um skaðvalda á rannsóknasviði Skógræktarinnar, tekur við ábendingum og upplýsingum um skaðvalda í netfangið brynja.hrafnkelsdottir@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson