Erfitt getur reynst að finna hagstæðar aðferðir til kyndingar á svæðum þar sem ekki er jarðhiti, en sé skógur í nágrenninu er kynding með trjáviði valkostur.

Eitt þessara svæða er Fljótsdalshérað og þar hafa skógfræðingarnir Loftur Jónsson hjá Skógráði og Þór Þorfinnsson hjá Skógrækt ríkisins unnið að tilraunaverkefni um notkun trjáviðar til húskyndingar undanfarin þrjú ár. Á næsta ári er því áætlað að reisa kyndingarstöð á Hallormsstað sem kemur til með að kynda nálæg hús með trjáviði. Útblástur kyndingarstöðvarinnar er síaður og losar hún því nánast eingöngu vatnsgufu og koltvísýring sem plönturnar hafa áður bundið.