Starfsfólk Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ásamt fulltrúum Skógræktarinnar og Landgræðslu Ísland…
Starfsfólk Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins ásamt fulltrúum Skógræktarinnar og Landgræðslu Íslands á Hafnarsandi. Ljósmynd: Áskell Þórisson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gróðursetti fyrir helgi ásamt starfsfólki ráðuneytis síns eitt þúsund birkiplöntur á Hafnarsandi. Með því vill ráðuneytið kolefnisjafna starfsemi sína og vera öðrum fyrirmynd. Ráðherra sýndi tilþrif við gróðursetninguna með geispu í hönd sem hann fékk í vor að gjöf frá Landssamtökum skógareigenda.

Frá þessu er sagt á vef ráðuneytisins á þessa leið:

Mummi ráðherra með geispuna góðu sem Landssamtök skógareigenda færðu honum að gjöf á súpufundi með þingmönnum í vor sem leið. Ljósmynd: Aðalsteinn SigurgeirssonStarfsfólk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kolefnisjafnaði í dag starfsemi ráðuneytisins til tveggja ára með því að gróðursetja 1.000 birkiplöntur í landgræðslu- og skógræktarsvæði í nágrenni Þorlákshafnar, sem fengið hefur nafnið Þorláksskógar.

Áhersla er á að draga úr losun í starfsemi ráðuneytisins, en kolefnisjöfnun með gróðursetningu er síðan notuð til að vega upp á móti þeirri losun sem ekki er unnt að fyrirbyggja. Aðallega er um að ræða losun vegna samgangna og þá ekki síst millilandaflugs. Átakið er liður í svo kölluðum Grænum skrefum í ríkisrekstri sem snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti.

„Við verðum öll að gera hvað við getum til að minnka kolefnisfótsporið okkar og Grænu skrefin eru ákaflega mikilvægt tæki til að aðstoða okkur í því,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Forstöðumenn allra þeirra stofnana sem heyra undir ráðherra undirrituðu fyrir skemmstu yfirlýsingu um að setja fyrir lok árs loftslagsmarkmið fyrir stofnanir sínar, þar sem meðal annars er gengið út frá því að starfsemi þeirra verði kolefnishlutlaus með öllu.

Birkiplönturnar sem gróðursettar voru í dag voru settar niður á landgræðslu- og skógræktarsvæði nærri Þorlákshöfn en undanfarið hafa Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðsla ríkisins og Skógræktin unnið að skipulagi skógræktarverkefnis á þessu svæði, undir nafninu Þorláksskógar.


Starfsmenn þessara stofnana leiðbeindu starfsfólki ráðuneytisins um gróðursetninguna og sýndu því rétt handtök. Fulltrúar úr fráfarandi og verðandi bæjarstjórn í Sveitarfélaginu Ölfusi voru enn fremur á staðnum.

 Fréttin á vef ráðuneytisins