Nemendur Seyðisfjarðarskóla eru meðal þeirra sem tekið hafa þátt í gróðursetningu í svæðum Skógrækta…
Nemendur Seyðisfjarðarskóla eru meðal þeirra sem tekið hafa þátt í gróðursetningu í svæðum Skógræktarfélags Seyðisfjarðar. Mynd: Seyðisfjarðarskóli

Á fundi umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar 30. mars var tekið vel í erindi Frá Skógræktarfélagi Seyðisfjarðar um áframhaldandi samstarf og endurskoðun á mörkum þeirra svæða sem félagið hefur til gróðursetningar.

Nýskipuð stjórn Skógræktarfélags Seyðisfjarðar óskaði góðfúslega í erindi til umhverfisnefndar eftir áframhaldandi farsælu samstarfi við stofnanir sveitarfélagsins líkt og verið hefur. Félagið óskar eftir skilgreiningu á svæðum sem félagið megi planta áfram í næstu áratugina og vísar í erindi sínu til eldra samkomulags. Jafnframt spyr félagið hvort til greina komi að planta í hlíðinni norðan byggðarinnar frá Hrútahjalla inn að Fjarðarseli.

Skógræktarfélagið býður einnig fram aðstoð sína í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu ofanflóðamannvirkja ofan byggðarinnar á Seyðisfirði.

Fram kemur í fundargerð umhverfisnefndar að hún fagni erindinu og vilji sjá áframhaldandi farsælt samband við Skógræktarfélagið. Nefndin vísar til þess að við endurskoðun aðalskipulags hafi verið áformað að yfirfara afmörkun skógræktarsvæða og leggja mat á þörf á nýjum svæðum.

Horfur eru því á að áfram verði haldið við metnaðarfulla skógrækt á Seyðisfirði, íbúunum og umhverfinu til góðs.

Texti: Pétur Halldórsson