Eftir því sem skógar á Íslandi hafa vaxið úr grasi hafa menn í sí auknu mæli farið að skoða notkun þeirra til eldiviðar. Notkun á eldiviði er stórt hagsmunamál fyrir skógrækt framtíðarinnar. Í fyrsta lagi er mikilvægt að nýta það timbur sem fellur til við fyrstu grisjun skógarins og nýtist ekki til iðnaðar vegna smæðar. Og í öðru lagi er grisjun, a.m.k. lerkiskóganna, nauðsynleg til að tryggja vöxt og viðgang skógarins til lengri tíma þannig að bestu trén fái notið sín. Á Norður- og Austurlandi hafa verið gróðursettir allmiklir lerkiskógar sem hafa vaxið ótrúlega hratt á þurru og erfiðu landi. Við 20-25 ára aldur er tímabært að grisja þessa skóga til að gefa bestu timburtrjánum rými til vaxtar. Sá grisjunarviður sem fellur til við 25 ára aldurinn er afar breytilegur að gæðum enda er verið að fjarlægja tré sem eru kræklótt, brotin eða hafa orðið undir í samkeppni um ljós og næringu. Við grisjunina eru bolirnir afkvistaðir og greinarnar látnar rotna í skógarbotninum og verða að næringu fyrir eftirstandandi tré. Sumt af því sem fellur til má nota sem girðingastaura en allt annað efni mætti nýta sem eldivið enda skiptir vaxtarform og gildleiki litlu máli fyrir eldinn.

En hver eru umhverfisáhrifin af því að nota eldivið? Tré og aðrar plöntur binda CO2 í gegnum ferli sem kallast ljóstillífun. Kolefnið (C-ið) í CO2 nýta plönturnar til eigin vaxtar og uppbyggingar en súrefnið (O2) berst út í andrúmsloftið. Eftir því sem plönturnar (skógurinn) vaxa hraðar, þeim mun meiri verður bindingin á CO2. Hins vegar mun þetta kolefni á einhverjum tímapunkti losna út í andrúmsloftið aftur á formi CO2. Spurningin snýst bara um hversu fljótt það losnar aftur. Ef að viðurinn er látinn liggja óáreittur út í skógi byrja örverur fljótlega að brjóta niður lífmassan og hann rotnar með tímanum. Við rotnunina losna lífræn efni, koltvíoxíði er skilað til baka út í andrúmsloftið og ýmis næringarefni verða aftur aðgengileg nýjum plöntum í vexti. Þessi hringrás á sér stað í öllum vistkerfum og er grundvallarforsenda þess að næringarefni sem hafa verið bundin í trénu skili sér aftur í vistkerfið. Ef að viðurinn er hins vegar nýttur á einhvern hátt, lengist sá tími sem kolefnið er bundið í honum.

Í kolefnisbókhaldi er brennsla á eldivið talinn kolefnishlutlaus svo framarlega sem ekki er gengið á heildarstærð skógarins og losun vegna brunans er ekki meiri en það magn sem skógurinn er að binda hverju sinni. Sem dæmi um umhverfisáhrif má skoða eyjuna Grímsey, þar sem hús eru kynnt með olíu í dag.  Þar eru brenndir tæplega 200 þúsund lítrar af olíu árlega til húshitunar. Þessi bruni skilar um 520 tonnum af CO2 í lofthjúpinn. Ef skipt væri í innlent eldsneyti eins og við úr íslenskum skógi myndi svipað magn af CO2 vissulega skila sér í lofthjúpinn en munurinn væri sá að CO2 frá olíunni er viðbót af CO2 inn í kerfið og ekki hluti af hinni stanslausu hringrás kolefnis sem sífellt á sér stað í plönturíki náttúrunnar. Kolefni er í stanslausri hringrás um lífheiminn þar sem ófrumbjarga lífverur brenna því með ýmsu móti hvort sem er í frumum líkamans eða í formi eldiviðar. Þessi bruni er oftast í góðu jafnvægi við þann vöxt hjá frumbjarga lífverum sem krefst bindingar á kolefni.  Milljóna ára gamalt kolefni frá jarðefnaeldsneyti sem maðurinn skilar nú í lofthjúpinn af miklum móð hefur hinsvegar enga náttúrurlega bindingu á bak við sig og safnast því fyrir í lofthjúpnum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Texti: Brynhildur Bjarnadóttir
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir