„Fegurð er smekkur. Fegurð er skoðun hvers og eins,“ segir Björn í pistli sínum. Ljósmynd: Pétur Hal…
„Fegurð er smekkur. Fegurð er skoðun hvers og eins,“ segir Björn í pistli sínum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga hjá Skógræktinni og formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, ræddi um fegurð í þættinum Uppástandi á Rás 1. Þar velti hann meðal annars upp fegurð skóga og ólíkri fegurðarskynjun eftir veðri og vindum, stað og stund, en ræddi líka um deilur fólks um fegurð.

Uppástand er á dagskrá Rásar 1 laust eftir klukkan tólf á hádegi. Þar flytur fólk úr ýmsum áttum stuttar hugleiðingar sem tengjast sama umfjöllunarefni. Um þessar mundir er umfjöllunarefnið einmitt fegurð og áhugavert að fá að heyra um fegurðina frá misjöfnum sjónarhornum. Björn Traustason er sá fjórði í röðinni sem fjallar um fegurð.

Lokaorð hans í pistlinum eru á þessa leið:

„Fegurðin kemur að innan, er oft sagt, og það er hverju orði sannara. Við getum nefnilega skapað fegurð innra með okkur þannig að hún smitist til annarra. Í hraða hversdagsins er auðvelt að missa af fegurðinni. Til þess að ná í hana þurfum við að staldra við og leyfa okkur að njóta augnabliksins. Það getur verið erfitt, en það er til mikils að vinna. Því hvar værum við án fegurðar í tilverunni?“

Texti: Pétur Halldórsson