Vöxtur 70% meiri nú en fyrir hálfri öld

Nýjar niðurstöður vísindamanna hafa leitt í ljós að trjágróður um allan heiminn vex verulega hraðar nú en hann gerði fyrir árið 1960. Sérfræðingar við tækniháskólann í München í Þýskalandi, Technische Universität München (TUM), settu nýlega fram haldbær gögn um þetta undur úr ríki náttúrunnar.

Grein um rannsóknina birtist í tímaritinu Nature Communications og þar er ítarlega farið yfir hvernig vaxtarhraði trjáa hefur aukist, sérstaklega í Mið-Evrópu. Þar mælist nú 70% hraðari viðarvöxtur en fyrir fáeinum áratugum.

Niðurstöðurnar fengust með greiningu gagna sem safnað var á löngum tíma í tilraunareitum. Reitir þessir hafa verið notaðir hafa til rannsókna frá því um 1870. Þeim var frá upphafi ætlað að þjóna sem mælikvarði á hvernig aðstæður væru að jafnaði í jarðvegi og loftslagi vítt og breitt um Mið-Evrópu.

Sérstaklega áhugavert þykir að sjá á gögnunum að í kringum 1960 tók viðarvöxturinn áberandi kipp upp á við. Þegar komið var fram á þennan áratug sem við nú lifum var vöxtur beyki- og grenitrjáa orðinn nærri tvöfalt hraðari en hann var fyrir hálfri öld.

Sagt er frá rannsókninni á náttúrufréttavefnum Nature World News. Þar hafði áður verið tíundað það mat vísindamanna að aukið hlutfall koltvísýrings í lofthjúpi jarðar gæti raunverulega ýtt undir vöxt trjágróðurs. Aukinn koltvísýringur stuðlaði að meiri rótarvexti sem gerði trjánum kleift að taka upp meira af næringarefnum úr jarðveginum og þar með að vaxa meira. Menn hefðu talið sig vita að stærð rótarkerfis hefði verið hamlandi þáttur á heildarvöxt trjáa en eftir því sem aukinn koltvísýringur í lofti greiddi fyrir meiri rótarvexti ættu trén inni meiri orku til að leggja í hæðarvöxtinn.

Og þetta er einmitt það sem sést á þeim 600.000 trjám sem skoðuð voru í rannsókninni, segir Hand Pretzsch, yfirmaður skógræktar- og skógarnytjasviðs hjá TUM. Hins vegar megi ekki taka þessum tíðindum með allt of miklum fögnuði. Þrátt fyrir að tré séu fyrirtaks kolefnisgeymsla séu takmörk fyrir því hvað skógar heimsins geti tekið í sig mikið af kolefni og mannkynið losi mun meira en skógarnir nái að binda.

Í ofanálag segir Pretzsch í yfirlýsingu við Nature World News að breytingar á vexti trjáa geti leitt til ákveðinna breytinga á hegðun bæði jurta- og dýralífs á viðkomandi svæði. Þær plöntu- og dýrategundir sem breytingarnar hafi mest áhrif á séu þær sem reiði sig á vistkerfi þar sem ríki ákveðið mynstur í viðgangi skógarins. Framtíð þessara tegunda sé því komin undir því að þær hafi nægilegan sveigjanleika til að standast breytingarnar. Að sögn Pretzsch hefur rannsóknarhópurinn nú snúið sér að því að rannsaka betur þessar óvæntu niðurstöður og verður það verkefni hans næstu árin.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson