Telja má víst að verr hefði farið fyrir hitaveitulögninni sem liggur til Akureyrar frá Laugalandi í Eyjafirði ef trjágróður hefði ekki verið á leið aurskriðunnar sem féll í nótt ofan við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri. Skógrækt er öflug aðferð til að draga úr hættu á skriðuföllum.

Hér sést hvernig trjágróðurinn ofan við hitaveitulögnina hefur dregið úr ferð skriðunnar og komið í veg fyrir að verr færi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonMikið hefur rignt á Akureyri undanfarna daga og mældist sólarhringsúrkoman frá kl. 9 í gærmorgun fram til níu í morgun 27,5 millímetrar. Byggingaframkvæmdir standa nú yfir í Hagahverfi sem er uppi á brekkunni ofan við Gömlu-Gróðrarstöðina og frárennslislagnir ekki fullfrágengnar. Neðan hverfisins er gamalt tún og norðan við það rennur lækur í litlu gili.

Svo virðist sem jarðvegurinn á túninu hafi orðið vatnsósa og látið undan vatnsþrýstingnum á gilbarminum þar sem enginn trjágróður er til að binda jarðveginn. Mikið vatn og jarðvegur fór þá af stað og rann niður brekkuna þar sem hitaveitulögnin liggur ofan jarðar við malbikaðan stíg. Ofan stígsins er þéttur trjágróður með ösp, víði og birki sem greinilega hefur hamið aurflóðið og tekið mesta þrýstinginn af lögninni.

Greinilegt er að mikið hefur gengið á þegar skriðan féll og aurblandað vatn rann niður brekkuna. Farvegur Naustalækjar sem þarna er skammt frá fylltist af aur og meðal annars barst talsverður aur yfir nokkra matjurtagarða sem Akureyrarbær hefur til útleigu. Einnig barst leðjan alla leið niður á Krókeyri þar sem Gamla-Gróðrarstöðin stendur og Akureyrarskrifstofa Skógræktarinnar er til húsa. Engar skemmdir urðu þó á húsinu eða öðrum mannvirkjum en mikið verk verður að hreinsa til á svæðinu og koma lækjum í eðlilegan farveg á ný. Sú vinna hófst síðdegis í dag með því að stígurinn með fram hitaveitulögninni var ruddur.

Tré gera gagn í brekkum og fjallahlíðum

Það er gömul saga og ný að trjágróður í brekkum og fjallahlíðum gerir mikið gagn og ef hann er fjarlægður eykst stórlega hætta á skriðuföllum. Víða um heim eru vatnsflóð og skriðuföll orðin alvarlegt vandamál og flóð á láglendi má iðulega rekja til þess að skógum hefur verið eytt ofar í landinu. Dæmi um þetta hafa sést undanfarin ár víða að úr heiminum, til dæmis frá Bretlandseyjum, Nepal og víðar. Þar sem hlíðar eru skógi vaxnar rennur vatn hægt og rólega niður og næringarefni tapast ekki á leiðinni. Í skóglausum hlíðum rennur vatnið hratt og tekur með sér jarðveg og næringarefni. Tré hindra því jarðvegsrof og næringarefnatap.

Víða hefur verið fjallað um þennan vaxandi vanda í heiminum. Til dæmis hefur alþjóða viðskiptaráðið, World Economic Forum, fjallað um aðferðir til að hamla gegn ýmissi náttúruvá af þessum toga, meðal annars með hjálp gervigreindar. Frá Kína er líka þetta skemmtilega myndband komið sem sýnir okkur muninn á því hvað gerist þegar vatn rennur um vel gróið land samanborið við ógróið.

Texti: Pétur Halldórsson