Björgunarsveitirnar bjóða nú fólki sem vill draga úr eða hætta flugeldakaupum að kaupa í staðinn trjáplöntur sem gróðursettar verða á Hafnarsandi í Ölfusi. Trén má líka kaupa sem mótvægi við mengun af völdum flugeldanna.

Í stað þess að kaupa staka flugelda eða flugeldapakka getur fólk nú keypt svokölluð Rótarskot og á vef Landsbjargar segir að þetta sé ný leið til þess að styrkja öflugt og mikilvægt sjálfboðastarf björgunarsveitanna. Hvert Rótarskot gefi af sér tré sem plantað verði með stuðningi  Skógræktarfélags Íslands í nýjan Áramótaskóg Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Skógur þessi verður ræktaður á því stóra svæði á Hafnarsandi í Ölfusi sem Skógræktin og Landgræðslan ætla í sameiningu að breyta úr auðn í skóg.

Hugmyndina að þessum valkosti við flugeldana átti Rakel Kristinsdóttir sem segir í samtali við DV að hugmyndin hafi komið í kjölfarið á BS-ritgerð hennar, Eldfimt efni, sem hún skrifaði vorið 2017. Þar kannaði hún fjármögnun björgunarsveitanna með tilliti til skotelda en hafði áður velt þessum hlutum mikið fyrir sér, m.a. hvernig draga mætti úr slysum. Í fyrra fékk hún Sjóvá og Reykjavíkurborg til að vera með í að afmarka skotsvæði á Skólavörðuholti og Klambratúni í Reykjavík og í ár bætist Landakot við.

Verkefnið Skjótum rótum er ávísun á skógarplöntu sem hægt er að kaupa á öllum sölustöðum Landsbjargar. Skógræktarfélag Íslands sér til þess að tréð verði gróðursett en kaupandinn fær í hendur umslag með minjagrip til sannindamerkis um að hann hafi styrkt verkefnið.

Allur ágóðinn af sölu Rótarskotanna rennur til björgunarsveitanna.Sölustaðir eru hjá björgunarsveitum um allt land. og kosta Rótarskotin frá 3.990 krónum.

Texti: Pétur Halldórsson