Myndarlegt sitkagreni í Haukadalsskógi
Myndarlegt sitkagreni í Haukadalsskógi

Hefur störf á nýju ári

Trausti Jóhannsson, skógfræðingur og húsasmiður, hefur verið ráðinn í stöðu skógarvarðar á Suðurlandi. Fjórir sóttu um stöðuna.

Trausti er Sunnlendingur, frá Mjóanesi í Þingvallasveit. Hann lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Hafnarfirði 2008 og B.sc.-prófi í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2013. Í lokaverkefni sínu rannsakaði hann lifun og vöxt smárra skógarplantna og bar saman við hefðbundnar plöntugerðir í nýskógrækt.

Undanfarin þrettán ár hefur Trausti að mestu starfað sem húsasmiður en einnig sem verktaki við grisjun skóga, gróðursetningar og fleiri verkefni. Hann starfar nú sem húsasmiður hjá byggingafyrirtæki í Svíþjóð. Hann tekur nú að búa sig undir flutning heim frá Svíþjóð sem ekki verður gert á einni nóttu. Gert er ráð fyrir að Trausti taki til starfa sem skógarvörður á nýju ári en þangað til sinnir Hreinn Óskarsson áfram skyldum skógar­varðar um sinn auk starfa sinna sem sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar.

Skógræktin býður Trausta Jóhannsson velkominn til starfa hjá stofnuninni.

Texti: Pétur Halldórsson