Ungur sitkagreniskógur í Haukadal. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Ungur sitkagreniskógur í Haukadal. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er aðalhöfundar nýrrar ritrýndar vísindagreinar sem komin er út í 35. tölublaði tímaritsins Icelandic Agricultural Sciences. Þar eru settar fram vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni á Íslandi sem nýtast til að bæta gerð áætlana um ræktun, umhirðu, nytjar og bindingu sitkagreniskóga hérlendis.

Vaxtarjöfnur eru mikilvægt tæki við áætlanagerð í skógrækt, hvort sem er við stök skógræktarverkefni, áætlanir fyrir heilar jarðir eða jafnvel stærri landsvæði. Skógfræðingar hafa notast við slíkar vaxtarjöfnur í tvö hundruð ár eða svo en á síðari árum hefur tölvutæknin auðveldað mjög bæði gerð þeirra og notkun. Hérlendis er til dæmis notaður hugbúnaður sem heitir IceForest og sparar skógfræðingum sporin við gerð áætlana um skógræktarverkefni svo sem grisjun, lotulengd og fleiri þætti. Skógmælingar eru grunnur alls þessa og í rannsókninni sem fjallað er um í greininni voru nýtt gögn um sitkagreni af mæliflötum frá Vestur- og Suðvesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi.

Greinin sem nú hefur verið ritrýnd og birt í Icelandic Agricultural Sciences er á ensku og ber titilinn Individual-tree growth models for Sitka spruce (Picea sitchensis) in Iceland. Höfundar auk Lárusar eru Arnór Snorrason, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, og Timo Pukkala, prófessor emerítus við háskólann í Austur-Finnlandi, University of Eastern Finland.

Góðar spár mikilvægar

Hæðarjöfnur fyrir stök tré. Gröf úr grein Lárusar og félagaÞessar nýju jöfnur um sitkagreni verða mikilvægur þáttur í því áætlanagerðarkerfi sem notað er hér á landi því þær gera mögulegt að áætla betur umhirðu, lotulengd, viðarframleiðslu og kolefnisbindingu til að arðsemi ræktunarinnar verði sem mest. Sitkagreni er ein af þeim trjátegundum sem mest hafa verið notaðar skógrækt á Íslandi enda vex það vel víða um land.

Vaxtarjöfnurnar sem lýst er í greininni voru aðlagaðar með gögnum frá föstum mæliflötum sem Skógræktin stofnaði til á árunum 1970 til 2013. Tíðni endurmælinga á mæliflötunum var mismunandi eða frá þremur upp í sextán ár. Vegna þessarar óreglulegu tíðni endurmælinga þurfti að beita bestunarnálgun (optimization approach) til að endurskapa eins árs þvermálsvöxt og sjálfgrisjun skóga. Auk þvermáls- og sjálfgrisjunarjafna var aðlöguð yfirhæðarjafna sem lýsir frjósemi viðkomandi lands og einnig jafna sem lýsir hæðarvexti stakra trjáa.

Uppfærslna þörf þegar skógarnir eldast

Við val á jöfnum var horft á hvort þær hegðuðu sér rökrétt í framtíðarspám. Greinarhöfundar telja að þær jöfnur sem fjallað er um í greininni muni nýtast vel fyrir allt að níutíu ára gamla sitkagreniskóga. Góð gögn liggja að baki jöfnunum þó að nokkuð skorti á að næg gögn fengjust um sjálfgrisjun enda átti sér stað mjög lítil sjálfgrisjun á mæliflötunum. Þá er bent á að þar sem sitkagreniskógar eru enn á ungum aldri á Íslandi sé ljóst að uppfæra þurfi jöfnurnar eftir því sem skógarnir eldast.

50 metra tré á Íslandi?

Spár verða alltaf erfiðari eftir því sem lengra er horft fram í tímann en samkvæmt jöfnunum sem kynntar eru í greininni má búast við því að sitkagreni sem vex við góðar aðstæður á Íslandi geti náð yfir 50 metra við 150 ára aldur. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi sem Lárus hélt á fagráðstefnu skógræktar sem fram fór á Hótel Geysi í apríl. Þar kynnti hann þessar nýju vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni á Íslandi en þar var jafnframt til sýnis  veggspjald um nemandaverkefni sem Jannick Elsner vann í starfsnámi hjá rannsóknasviði Skógræktarinnar á Mógilsá með aðstoð Lárusar og annars sérfræðings á rannsóknasviði Skógræktarinnar, Bjarka Þórs Kjartanssonar. Jannick vann að lífmassaútreikningum í starfsnáminu sem notaðir verða við gerð nýrra lífmassafalla. Jöfnur til að meta rúmmál og lífmassa trjáa eru grunnur að mati á viðarmagni, lífmassa og kolefni í skógum, ekki síst í tengslum við kolefnisbókhald.

Texti: Pétur Halldórsson