Rauðgrenifræ. Ljósmynd: Dan Aamild/NIBIO. 
Rauðgrenifræ. Ljósmynd: Dan Aamild/NIBIO. 

Skógasvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen hefur hafið útgáfu á hagskýrslum um skóga og skógrækt. Í fyrstu skýrslunni sem nýlega kom út er að finna tölfræðileg gögn um trjáfræ og skógarplöntuframleiðslu. Stefnt er að árlegri útgáfu hagtalna sem þessara og að gögnin nái til fleiri þátta, meðal annars útflutnings.

Til að átta sig á þróun skógræktarmála í samtímanum er nauðsynlegt að hafa góðan aðgang að tölfræðilegum upplýsingum. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að viðhalda heilbrigði og viðnámsþrótti skóga með því að tryggja nægilegan erfðafjölbreytileika svo skógarnir geti aðlagast loftslagsbreytingum. Frá þessu er sagt í frétt á vef NordGen.

Til að ná ofangreindum markmiðum skiptir sköpum að nota rétta fræið og rétta plöntuefniviðinn. Fyrsta hagskýrslan kom nýlega út og enskur titill hennar er Statistics: Forest Seeds and Plants in the Nordic Region (Hagtölur: Trjáfræ og skógarplöntur á Norðurlöndum). Í fréttinni um skýrsluna á vef NordGen segir Kjersti Bakkebø Fjellstad, sviðstjóri skógasviðs NordGen, að unnið hafi verið að gagnasöfnun í skýrsluna um nokkurra ára skeið og þar sé að finna gögn frá öllum Norðurlöndunum. Nytsamlegt sé að taka slíkar upplýsingar saman í sameiginlegri skýrslu landanna enda séu þau talnagögn sem sett eru fram í skýrslunni mikilvæg til að fylgjast megi með þróun plöntu- og fræframleiðslu á svæðinu.

Markmiðið með skýrslugerðinni er einmitt að gefa yfirlit um framleiðslu og notkun á fræi og ungplöntum á Norðurlöndunum. Í skýrslunni er að finna helstu tölur frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Ætlunin er að gefa út röð sambærilegra skýrslna á komandi árum að sögn Thomas Solvin, ritara vinnuhópsins hjá skógasviði NordGen, enda sé mikilvægt í norrænu samstarfi að hafa aðgang að sameiginlegum gögnum sem gefi yfirsýn um stöðu mála. Vilji sé til að hagskýrslur sem þessar verði gefnar út á hverju ári framvegis og fleiri þættir verði teknir með en í þessari fyrstu skýrslu. Til dæmis geti ítarlegri upplýsingar um útflutning komið að góðum notum.

Skýrslan er fyrst og fremst byggð á landsskýrslum (2013-2020) úr norræna samstarfinu í gegnum ráð NordGen um endurnýjun skóga. Þar eru enn fremur gögn frá sænsku ríkisskógræktinni Skogsstyrelsen, finnsku náttúruvísindastofnuninni LUKE, íslensku Skógræktinni, finnsku matvælastofnuninni Ruokavirasto, Naturstyrelsen sem er ríkisstofnun Dana um náttúrumál og norska Skogfrøverket sem er stofnun um skógarfræ og skógarplöntuframleiðslu.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson