Skógardagurinn mikli var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri í 10. sinn í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi um helgina. 

Skógardagurinn mikli, árleg skógarhátíð Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga, Skógræktarfélags Austurlands og Skógræktar ríkisins, var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri í 10. sinn í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi um helgina. 

Dagurinn hófst á hinu árlega Skógarhlaupi þar sem hlaupin er 14 km leið um skóginn. Sigurvegari í karlaflokki var Jón Jónsson á tímanum 1 klst. og 4 mín. en Jón sigraði einnig í fyrra og bætti tíma sinn um tvær mínútur. Í öðru sæti var Stefán Hrafn Garðarsson og í því þriðja Hjálmar Jónsson. Í kvennaflokki sigraði Elva Rún Klausen á tímanum 1 klst. og 21 mín. Í öðru sæti varð Gyða Guttormsdóttir og í því þriðja Þóra Jóna Kemp Árbjörnsdóttir.

Eftir hádegi hófst hin formlega skemmtidagskrá. Meðal atriða má nefna skógarþrautir skátanna, skógarálfana Pjakk og Petru, söng Héraðsdætra og Liljanna og endurkomu Dúkkulísanna.

Einnig fór fram Íslandsmeistarakeppnin í skógarhöggi og sigurvegari var Ólafur Árni Mikaelsson. Í öðru sæti varð Bjarki Sigurðsson og Benjamín Davíðsson í því þriðja.

Boðið var upp á heilgrillað naut, pylsur, ketilkaffi, lummur og fleira góðgæti. Áætlað er að 1.600 gestir hafi heimsótt Hallormsstaðaskóg á Skógardaginn mikla.
Texti og myndir: Esther Ösp Gunnarsdóttir