Æ fleiri fjölskyldur líta á það sem ómissandi þátt í jólaundirbúningnum að fara í skóg og fella sitt…
Æ fleiri fjölskyldur líta á það sem ómissandi þátt í jólaundirbúningnum að fara í skóg og fella sitt eigið tré þar sem slíkt er í boði.

Árlegt umræðuefni víða um lönd

Alltaf kemur upp umræðan fyrir jólin um hvort betra sé að nota lifandi jólatré eða gervi, hvort sé ábyrgara val gagnvart umhverfi og náttúru. Auðlindasvið Wasington-ríkis í Bandaríkjunum hefur sent frá sér skemmtilegt efni þar sem farið er yfir tíu mítur um þessi mál.

Við erum auðvitað ekki hlutlaus hjá Skógrækt ríkisins en bendum á að skylda okkar er samkvæmt lögum að leiðbeina um allt sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur. Áreiðanlegt er að umræða um ósvikin jólatré eða eftirlíkingar kemur upp víða um heim á hverju ári þegar jólin nálgast.

Hér eru míturnar tíu þýddar og staðfærðar fyrir Ísland að breyttu breytanda.

Míta 1: Notkun plastjólatrjáa stuðlar að skógvernd

Rétt er það að ofnýting eða rányrkja spillir skógum en í skógrækt á Íslandi eru jólatré ýmist tekin úr nytjaskógum sem hluti af grisjun eða úr reitum sem sérstaklega eru skipulagðir til jólatrjáaræktar. Jólatré eru því landbúnaðarafurð og ræktun þeirra stuðlar að aukinni skógrækt frekar en hitt.

Míta 2: Lifandi jólatré valda ofnæmi.

Ofnæmi fyrir barrtrjám er fremur sjaldgæft samkvæmt upplýsingum frá bandarískri rannsóknarstofnun um asma, ofnæmi og ónæmisfræði, American College of Allergy, Asthma and Immunology. Barrtré hreinsa líka mengunarefni og svifryk úr andrúmsloftinu þar sem þau vaxa. Í þéttbýli gera barrtré mikið gagn að þessu leyti og vinna því gegn áðurnefndum kvillum hjá fólki.

Míta 3: Plastjólatré eru eldtraust

Í auglýsingum er því haldið fram að gervijólatré standist eld í svo og svo langan tíma en þegar á annað borð kviknar í þeim verður mikill hiti og upp stígur eitraður reykur með hættulegum efnum eins og vetnisklóríði og díoxíni. Hvort sem valið er lifandi tré eða plasttré ber að gæta að eldvörnum.

Míta 4: Lifandi jólatré valda eldhættu

Til að minnka sem mest hættu á eldsvoða og til að jólatréð endist sem best og haldist fallegt er nauðsynlegt að athuga á hverjum degi hvort nægilegt vatn er í jólatrésfætinum. Gott er að nota díóðuseríur á trén sem hitna minna en eldri gerðir og hafa hvergi logandi kerti nálægt jólatrénu. Ef tréð þornar snemma og barrið verður hart og stökkt getur verið rétt að losa sig við það fyrr en ella.

Míta 5: Plasttré eru betri því þau má nota aftur og aftur

Ef lifandi jólatrjám er fargað á réttan hátt eru þau kurluð og lífræna efnið nýtt með ýmsum hætti. Lifandi jólatré brotna algjörlega niður. Plasttré er hins vegar ekki hægt að endurvinna og plast er margar aldir að brotna niður í náttúrunni. Og þau endast skemur en margir halda, að meðaltali aðeins sex ár í Bandaríkjunum og trúlega er það ekki ósvipað hérlendis.

Míta 6: Lifandi tré eru of dýr

Á Íslandi er algengt að 140 cm lifandi jólatré kosti 6000-7000 krónur og jafnvel má fá ódýrari tré þegar ýmis tilboð eru í boði. Algengt gervitré í þessari stærð kostar 16.900 krónur og tölurnar verða miklu hærri eftir því sem stærra tré er tekið. Það er því hægt að kaupa lifandi tré í a.m.k. tvö til þrjú ár fyrir það sem plastjólatréð kostar. Óvíst er hvort plasttréð verður enn jafnfallegt eftir þrjú ár og það er glænýtt.


Míta 7: Lifandi tré eru full af eiturefnum

Í jólatrjáarækt á Íslandi eru yfirleitt ekki notuð nein varnarefni gegn skordýrum, sjúkdómum eða illgresi. Séu slík efni notuð er það í algjörum undantekningartilvikum og í mjög hóflegu magni. Jólatrjáaræktendur á Íslandi leggja metnað sinn í að efnanotkun sé í lágmarki, helst engin. Plasttré sem gjarnan eru framleidd í fjarlægum heimsálfum eru bæði full af ýmiss konar kemískum efnum og jafnvel þungmálmum. Framleiðsla þeirra krefst líka mikillar orku sem yfirleitt er fengin úr kolum eða olíu og flutningurinn er olíufrekur líka. Vitað er að blýryk getur verið að finna á plastjólatrjám og það er hættulegt, ekki síst fyrir börn.

Míta 8: Lifandi jólatrjám fylgir ekkert annað en vesen og óþrifnaður

Já, vissulega þarf að gæta þess á hverjum degi að nóg sé af vatni á trénu en hvað er hálf mínúta á dag milli vina? Jú, vissulega dettur barr á gólfið þegar tréð er borið inn fyrir jólin og út eftir jólin. En þarf ekki að ryksuga hvort sem er? Og hvaða þrifnaðarilmur er betri fyrir jólin en ilmurinn af fersku jólatré?

Míta 9: Ég get bara sótt mér tré út í skógi einhvers staðar

Nei, ekki alveg. Til þess þarf að fá leyfi skógareigandans, hvort sem það er Skógrækt ríkisins, skógræktarfélög, skógarbændur eða aðrir. Hætt er við að verulega sæi á skógum landsins ef allir færu og hjyggju sér jólatré hvar sem þeim sýndist. Trén sem höggvin eru til jólatrjáa eru valin af kostgæfni og það gerir fólk sem til þess hefur kunnáttu. Skilja þarf eftir í skóginum þau tré sem eiga að vaxa áfram og verða til nytja í framtíðinni. Víða er boðið upp á að fólk geti komið og fellt sitt eigið tré í skógum landsins. Það er gert í sérstökum reitum og undir eftirliti. Síðan eru ný tré ræktuð í stað þeirra sem höggvin voru.

Míta 10: Það er mitt mál hvort jólatréð hjá mér er lifandi eða úr plasti

Hvort hljómar skemmtilegra og heilbrigðara, að fara út í skóg og ná í ferskt og ilmandi tré eða standa í biðröð í verslun og bíða eftir að fá að borga fyrir eftirlíkingu af tré? Eftirlíkingin er alltaf innflutt og það þýðir gjaldeyristap fyrir þjóðarbúið. Lifandi íslenskt tré kemur frá skógareigendum og með því að kaupa lifandi íslenskt tré leggjum við til atvinnulífs á Íslandi, styrkjum byggð vítt og breitt um landið, spörum gjaldeyri, stuðlum að meiri skógrækt, bættu umhverfi, betra lofti og hömlum gegn loftslagsbreytingum ásamt miklu, miklu fleiru góðu og gagnlegu.

Gleðileg jól!

Texti og myndir: Pétur Halldórsson
Heimild: Natural vs. fake Christmas tree - top 10 myths