Síðustu vikur hefur flettisög Skógræktar ríkisins verið á Suðurlandinu og þá keppast menn við að fletta sverustu trjábolina í borðvið. Við flettinguna er notuð WoodMizer sem er færanleg bandsög. Viðurinn verður nýttur til að smíða bálskýli í Þjórsárdal, í borð og bekki við skógarstíga og sem klæðning á viðarskýli í Haukadal. Afgangurinn er seldur til almennings og selst timbrið yfirleitt það fljótt að enginn lager er til á Suðurlandinu. Er oftast um að ræða ókantað efni sem notað hefur verið í klæðningar á bústaði og hús bæði utan og innan. Standa vonir til að á næstu árum verði keyptar hraðvirkari sagir svo hægt verði að anna sívaxandi eftirspurn eftir innlendu timbri.

Eins og meðfylgjandi myndir sýna eru trén sem flett eru engin smá smíði og þau sverustu yfir 40 cm í þvermál. Írskir skógfræðinemar frá Háskólanum í Dublin sem eru í starfsnámi þessar vikurnar hjá Skógrækt ríkisins, kynntust timburflettningu undir leiðsögn Einars Óskarssonar, verkstjóra í Haukadal.

frett_05052010_2_b


frett_05052010_3_b


frett_05052010_4_bTexti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi

Myndir: Daniel Conneaor, írskur skógfræðinemi