Nú nýlega birtist grein í tímaritinu Applied Soil Ecology þar sem Edda S. Oddsdóttir, sérfræðingur Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá, er fyrsti höfundur. Greinin segir frá tilraun sem framkvæmd var í Haukadal þar sem áhrif þess að smita birkiplöntur með svepprót og sníkjusveppum á skordýrum rétt fyrir gróðursetningu voru skoðuð.

Niðurstöðurnar sýndu að smitunin hefði áhrif á rótarnag af völdum ranabjöllulirfa, en þó voru áhrifin mismunandi eftir því í hvernig gróðurumhverfi var gróðursett. Í uppblásnum mel og nálægt birkiskógi minnkuðu rótarskemmdir við smitun en í lyngmóa jukust skemmdirnar.

Eftir þrjú vaxtatímabil var marktækur munur í lifun plantna á milli gróðurumhverfa en enginn munur var milli smitaðra og ósmitaðra plantna. Að öllum líkindum má útskýra þennan mun milli gróðurumhverfa með samspili þeirra jarðvegsörvera sem fyrir eru við þær sem smitað er með en frekari rannsókna á því samspili er þörf.