Eins og komið hefur fram í fréttum komst ítölunefnd um Almenninga norðan Þórsmerkur að þeirri niðurstöðu að leyfa ætti þar sumarbeit nokkurs fjölda fjár. Reyndar skilaði landgræðslustjóri, sem sæti átti í nefndinni, minnihlutaáliti í samræmi við niðurstöðu nýlegrar úttektar Landbúnaðarháskóla Íslands þess efnis að ekki ætti að leyfa beit á Almenningum, því svæðið væri óbeitarhæft sökum virks jarðvegsrofs á stærsta hluta þess.

Samkvæmt lögum er hægt að krefjast yfirítölumats séu menn ekki sáttir við niðurstöðu ítölumats. Það gerði Skógrækt ríkisins í byrjun apríl. Með bréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 30. apríl s.l. var Skógræktinni tilkynnt að fallist hafi verið á kröfuna um yfirítölumat og að yfirítölunefnd verði skipuð.

Í bréfinu frá ráðuneytinu kom fram að fimm aðrir aðilar hafi einnig lagt fram kröfu um yfirítölumat en jafnframt að „við yfirferð þeirra erinda sem höfðu borist var ljóst að einungis einn aðili var líklegur til þess að geta talist aðili að kæru til yfirítölunefndar, þ.e. Skógrækt ríkisins.“ Ástæðan er einkum sú að Skógrækt ríkisins er umsjónaraðili með aðliggjandi landi (Þórsmörk) og er skuldbundin samkvæmt samningi til að sjá til þess að Þórsmörk sé friðuð fyrir beit. Verði beit leyfð á Almenningum þyrfti Skógræktin því að girða á milli, sem hefði kostnað uppá vel á annan tug milljóna króna í för með sér. Hjá öðrum aðilum sem kærðu voru ekki slíkir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.  


Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson