Fer sem eldur í sinu að sögn skordýrafræðings

Vísbendingar eru um að birkikemba geti valdið talsverðu tjóni á birkitrjám á sunnan- og vestanverðu landinu í sumar að því er fram kemur í frétt í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við Erling Ólafsson skordýra­fræðing. Erling vitjaði gildra við Rannsókna­stöð skógræktar Mógilsá í gær.

Fréttin er á þessa leið:

Mikið var af birkikembu í ljósgildrum á Mógilsá í Kollafirði þegar vitjað var í gærmorgun. Erling Ólafsson, skor­dýrafræðingur hjá Náttúrufræði­stofn­un, segir að í fyrsta lagi staðfesti þetta góða tíð síðustu viku, en í öðru lagi geti þetta og fleiri vísbendingar bent til þess að birkikemba geti í sumar valdið talsverðu tjóni á laufi birkis á Suðvesturlandi.

Fiðrildagildrur voru eins og venjulega settar út fljótlega eftir miðjan apríl. Um þetta verkefni á Náttúrufræði­stofn­un í samstarfi við náttúrustofur um allt land og hófst samfelld vöktun fiðrilda árið 1995.

Erling Ólafsson segir að í gær hafi hann vitjað um gildrurnar í þriðja skipti í ár og hafi birkikemba aukist mikið frá fyrstu vitjun. Nú hafi aflinn verið um 70 stykki eftir vikuna og aldrei hafi komið eins mikið í gildruna á Mógilsá á þessum árstíma, fjöldinn hafi rokið upp.

„Það er mikið af birkikembu á húsveggjum, sem gæti þýtt að það yrðu mjög áþreifanleg ummerki af völdum henn­ar á birkilaufi í sumar. Hún er komin um allt Suðvesturland og upp í Borgarnes og er í uppsveitum sunn­an­lands. Hún hefur breiðst út eins og eldur í sinu,“ segir Erling.

Illur fengur af nýliðanum

Birkikemba fannst fyrst hérlendis í Hveragerði 2005 og dreifðist fljótt um Ölfusið. Hún fannst í Fossvogi í Reykja­vík 2007 og vorið 2012 varð ljóst að birkikembu hafði fjölgað til mikilla muna og dreifst um mun stærra svæði.

„Það er illur fengur af þessum nýliða í íslensku fánunni því skaðsemi er veruleg af hans völdum á birki í görð­um. Þó ódæl sé hún þá verður það ekki af birkikembu haft að falleg er hún,“ segir Erling á pödduvef Náttúru­fræðistofnunar.

Smjúga inn í laufblöðin

Enn fremur segir þar að lirfur þessa smávaxna fiðrildis smjúgi inn í laufblöð birkis, komi sér þar fyrir og éti inn­vefi þeirra. Eftir því sem lirfurnar dafni taki blöðin að sölna og á endanum standi einungis eftir ysta lag efra og neðra borðs blaðs sem blási út eins og brúnn belgur.

Að sögn Erlings fundust einnig í gildrunni á Mógilsá í gær birkivefari og fáein eintök af dílamöl. Þessar tegundir eru meðal algengustu vorfiðrilda.