Birkiplöntur að skjóta upp kollinum í grennd við Heklu.
Birkiplöntur að skjóta upp kollinum í grennd við Heklu.

Fræðsluerindi hjá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi

Olga Kolbrún Vilmundardóttir land­fræð­ing­ur talar um þróun gróður­samfélaga í Heklu­hraunum og nágrenni í erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags sem haldið verð­ur í náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands 30. janúar. Greint verður frá helstu niður­stöðum gróður- og jarðvegsrannsókna við Heklu sem fram fóru sumarið 2015 og 2016 með vettvangsathugunum og fjarkönnunar­gögn­um.

Í kynningu á vef félagsins segir:

Umhverfi Heklu er afar virkt og mót­að af eldvirkni, veðurfari og land­notkun. Hekla hefur gosið æði oft frá landnámi og framleitt bæði gjósku og hraun. Aldur fjölmargra hrauna hefur verið greindur út frá sögulegum heimildum og gjóskulögum og spanna tímabilið frá 1158 til 2000. Auk eldvirkni hefur rof mótað ásýnd landsins við Heklu og rofabörð eru víða áberandi í landslagi. Landgræðsla og efling vist­kerfa hefur skilað umtalsverðum árangri gegn jarðvegsrofi við Heklu.

Í erindinu verður greint frá helstu niðurstöðum gróður- og jarðvegsrannsókna við Heklu sem fram fóru sumarið 2015 og 2016. Gróðurmælingar á tímaröðinni á sögulegum hraunum Heklu gefa til kynna hve hratt gróðurþekja myndast og hvernig plöntusamsetning þróast með hækkandi aldri yfirborðsins. Umhverfisþættir á borð við hæð yfir sjávarmáli, úrkomu, gjóskufall og beit hafa jafnframt mikil áhrif á framvinduna og beina henni í ólíkar áttir. Gróðurframvindu á hraunum og á grýttri jökulurð er ólíkt háttað en áhugavert er að bera saman framvindu síðustu 120 árin eða svo, síðan jöklar tóku að hopa eftir lok litlu-ísaldar. Til að kanna breytingar á gróðurfari við Heklu undanfarin 70 ár hafa flugmyndir verið nýttar þar sem m.a. má greina útbreiðslu skóg- og kjarrlendis og þróun rofabarða. Niðurstöður benda til að undanfarna áratugi hafi rofabörð haldist nokkuð stöðug þótt dæmi séu um að skóglendi hafi hörfað vegna ágangs og/eða jarðvegseyðingar. Síðustu ár virðist gróður vera í sókn sem sjá má m.a. af auk­inni útbreiðslu kjarrlendis.

Hekla og nágrenni er vettvangur rannsókna EMMIRS-verkefnisins, sem hlaut styrk úr öndvegissjóði Rannís árið 2015 og útleggst á íslensku sem „Könnun og kortlagning íslenskrar náttúru með fjarkönnun“. Sumarið 2015 var nýjum fjarkönnunargögnum aflað af Heklu og nágrenni. Auk Olgu vinnur Gro B.M. Pedersen eld­fjallafræðingur að jarðfræðirannsóknum en rafmagnsverkfræðingarnir Fadi Kizel og Nicola Falco vinna að myndgreiningu og þróun greiningaraðferða á fjarkönnunargögnum.

Olga Kolbrún Vilmundardóttir fæddist 1981 og ólst upp á Seyðisfirði. Hún lauk BS-gráðu í landfræði frá Háskóla Ís­lands 2004 og MS-gráðu frá sama skóla 2009. Hún starfaði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2005–2010. Haustið 2015 lauk Olga doktorsprófi í Landfræði frá Háskóla Íslands með jarðvegsmyndun við hopandi jökla sem rann­sóknar­verkefni.

Fyrirlesturinn verður haldinn 31. janúar kl. 17.15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands í Reykjavík.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd: Hreinn Óskarsson