Mynd: Þröstur Eysteinsson
Mynd: Þröstur Eysteinsson

Höfðavatn, sem einnig er kallað Álftavatn, er í þjóðskóginum Höfða á Völlum á Fljótsdalshéraði. Það var ræst fram með skurði á fyrri hluta 20. aldar og nýtt til engjasláttar á meðan Höfði var enn hefðbundin bújörð. Það gat því ekki með réttu kallast stöðuvatn lengur. Á liðnum áratug hefur Skógrækt ríkisins endurheimt Höfðavatn í tveimur áföngum; fyrst með lítilli hækkun stíflu og síðan með nýrri stíflu sem varð til þess að náttúrlegur lækjarfarvergur úr vatninu varð að læk á ný. Nú er þarna grunnt og lífmikið stöðuvatn auk þess sem hálfdeigjur á allstóru svæði umhverfis það hafa blotnað og breyst aftur í mýrar og flóa.

Á enginu urpu áður votlendisfuglarnir jaðrakan, stelkur og lóuþræll. Þær tegundir eru enn í mýrunum umhverfis vatnið og hefur fjölgað ef eitthvað er. Í júlí 2010 voru á Höfðavatni rauðhöfðaendur, urtendur og duggendur með ungahópa. Merkilegast er þó að þrjú flórgoðapör urpu við vatnið og var hvert þeirra með tvo stálpaða unga í lok júlí. Flórgoði er fremur sjaldgæfur varpfugl á Íslandi og háður lífríkum tjörnum og vötnum eins og Höfðavatn er nú orðið á ný.

 

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson