Frætínsluhópurinn kampakátur með tæpt kíló af birkifræi af fallegum trjám í grennd við skólann sinn.…
Frætínsluhópurinn kampakátur með tæpt kíló af birkifræi af fallegum trjám í grennd við skólann sinn. Ljósmynd: Egilsstaðaskóli

Nemendur þriðja bekkjar Egilsstaðaskóla fóru á degi íslenskrar náttúru 16. september og söfnuðu birkifræjum. Þar með tóku þau þátt í átaki Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að breiða út birkiskóga á Íslandi og hvetja fólk til að leggja sitt af mörkum. Fræinu verður dreift á Egilsstaðahálsi.

Á vef skólans kemur fram að ekki hafi verið leitað langt yfir skammt enda engin ástæða til ef gott birki er innan seilingar. Á skólalóðinni fundust birkitré sem voru alþakin þroskuðum reklum. Krakkarnir sýndu söfuninni mikinn áhuga og var hvert boxið á fætur öðru fyllt og tæmt í poka. Í framhaldinu var næsta skref að heimsækja Þröst skógræktarstjóra þar sem pokinn var afhentur. Í honum reyndust vera alls 947 gr. af fræi.

Skógræktarstjóri lofaði að sjá til þess að fræið yrði þurrkað og fundinn góður staður til að sá því svo nýr skógur geti vaxið upp. Ætlunin er að sá því beint í jörð upp með Egilsstaðahálsi í átt að Rauðshaug. Þannig gagnast þetta í nágrenni Egilsstaða og þar með hafa nemendurnir ungu stuðlað að betri framtíð í umhverfi sínu. Ástæða er til að hrósa krökkunum fyrir dugnaðinn og þakkar Skógræktin þeim kærlega fyrir þetta frábæra framtak.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson