Saga friðunar birkiskóga og starf Skógræktar ríkisins á svæðinu


Ástæður friðunar
Þórsmörk og Goðaland voru á síðari öldum og allt fram á þá tuttugustu aðalforðabúr birkiviðs hjá bændum í Rangárþingi. Viðurinn var nýttur til ýmissa hluta, t.d. kolagerðar. Landið var einnig nýtt til sumar- og vetrarbeitar, bæði fyrir sauðfé og nautgripi. Á 19. öld var svo komið á Merkursvæðinu, eins og víðar um land, að skógar voru horfnir eða að hverfa og jarðvegseyðing herjaði á. Bændur á svæðinu höfðu þá þegar áttað sig á því sem í stefndi og skipuðu sér skógarverði sem stjórnuðu skógarhöggi. Árið 1899 gerði Einar Helgason úttekt á skógum Þórsmerkur og lýsti þeim sem lágu, dreifðu kjarri. Sums staðar væri það að rýrna en annars staðar í framför. Aðra úttekt á skógunum gerðu Kofoed-Hansen, fyrsti skógræktarstjóri á Íslandi, og Einar Sæmundsen, fyrsti skógarvörður á Suðurlandi, í upphafi 20. aldar. Þeir voru sammála um að mikilvægt væri að friða Merkursvæðið fyrir beit til að bjarga því sem eftir væri af skógum, auka útbreiðslu þeirra og koma þannig í veg fyrir algera jarðvegseyðingu á svæðinu. Skógræktarstjóri vann að málinu á næstu árum ásamt skógarverðinum og heimafólki þar sem fremstur í flokki var Árni Einarsson í Múlakoti. Eftir Kötlugosið 1918 þakti vikur Merkursvæðið og taldist það óhæft til vetrarbeitar. Í kjölfar þess tókst fyrir tilstilli Árna í Múlakoti að fá samþykki allra bænda í Fljótshlíð fyrir því að beit yrði aflétt og að Skógræktinni yrði falið að sjá um friðun svæðisins. Fékkst í kjölfarið samþykki presta í Odda um friðun þess helmings Þórsmerkur sem tilheyrði Odda og Breiðabólstað vegna beitarréttar á Goðalandi. Þar með var komið samkomulag um friðun skóga á Þórsmerkursvæðinu.

Svæðið girt af
Svæðið var girt af á 3. áratug 20. aldar, af miklu harðfylgi, enda þurfti að flytja staura og gaddavír á hestum yfir Markarfljót. Sáu heimamenn, sér í lagi af innstu bæjum í Fljótshlíð, um vinnuna. Ekki var björninn unninn með því að girða svæðið af enda var girðingarstæðið mjög erfitt, skorið af mörgum giljum og jökulám. Lá girðingin í 200 til 550 metra hæð yfir sjó og því snjóþungt. Þurfti ítrekað að smala fé út úr girðingunni, því bæði mynduðust skörð í hana af náttúrunnar hendi sem og af manna völdum. Leitaði fé inn í girðinguna af Almenningum, sem eru næsti afréttur norðan Þórsmerkur, og af Stakkholti vestan Goðalands. Hið friðaða svæði stækkaði um helming þegar Landgræðsla ríkisins samdi við Vestur-Eyfellinga um friðun Almenninga, Steinsholts og Stakkholts. Var ný girðing gerð frá Gígjökli út í Markarfljót og í kjölfarið var gömul girðing sem umlukti Þórsmörk og Goðaland tekin niður. Var því lítið sem ekkert sauðfé á Þórsmerkursvæðinu í 20 ár frá 1990 til 2011. Árið 2012 fóru beitarréttarhafar á Almenningum aftur að reka sauðfé á afréttinn þrátt fyrir mótmæli fjölmargra. Nú er starfandi yfirítölunefnd sem hefur það hlutverk að ákveða hversu margt fé megi reka inn á afréttinn í framtíðinni. Ef upprekstur verður heimilaður í framhaldinu verður nauðsynlegt að setja upp nýja girðingu milli Almenninga og Þórsmerkur sem er afar kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur.


Stóri-Endi séð yfir í Bása á Goðalandi (Mynd: Howell 1900)


Útbreiðsla skóga
Í upphafi 20. aldar voru um 300-400 ha birkiskóga og kjarrs á Þórsmörk, Goðalandi og Almenningum. Voru þessi skóglendi umlukt rofabörðum og moldum og var jarðvegseyðing yfirvofandi. Fyrstu árin eftir friðunina var töluverðu af rofabörðum lokað með því að bera greinar og hrís í sárin og tókst það nokkuð vel. Við friðunina spratt upp mikið af þéttum nýgræðingi, bæði í og við gróðurtorfur, og var skipulega unnið að því að grisja þessa skóga á fyrstu áratugunum. Var hrísið og viðurinn notaður af bændum en einnig til varnargarðagerðar í Markarfljóti.

Tindfjallagil upp úr 1960 (Mynd: Garðar Jónsson)

Þéttust skógar og breiddust nokkuð út fyrstu áratugina, á hlýindakaflanum frá 1930-1960, en þá hægði heldur á útbreiðslunni. Í kjölfar þess að hið friðaða land var stækkað árið 1990 hætti fé að leita inn í skógræktargirðingarnar af Almenningum. Það, ásamt hlýnun veðurfars, skilaði mikilli fræmyndun og stuðlaði að útbreiðslu birkinýgræðings víða um svæðið. Í dag þekja skógar 1.250 ha og á 400 ha til viðbótar vex gisinn birkinýgræðingur sem mun þéttast á næstu árum og mynda samfellda skógarþekju. Ljóst er að friðun birkiskóga hefur gerbreytt gróðurfari á Þórsmerkursvæðinu til batnaðar og er hætt við að í dag væri þar örfoka land ef framsýnir bændur og embættismenn hefðu ekki gripið í taumana. Mikilvægi skóganna kom glögglega í ljós í kjölfar öskufalls úr Eyjafjallajökli árið 2010, en þá fauk aska allt um kring með tilheyrandi gróðurskemmdum. Innan skóganna lagðist askan hins vegar á skógarbotninn og nýttist gróðrinum sem áburðarefni.




Tindfjallagil 2013 (Mynd: Hreinn Óskarsson)


Viðhald gönguleiða
Helstu verkefni Skógræktar ríkisins síðustu ár hafa verið að viðhalda og lagfæra gönguleiðir á Þórsmerkursvæðinu, en þær eru um 90 km að lengd. Inn á svæðið tengjast tvær af vinsælustu gönguleiðum landsins, stígurinn yfir Fimmvörðuháls og Laugavegurinn. Er ástand gönguleiða nokkuð bágborið víða um svæðið og víða ljót sár vegna traðks og úrrennslis eftir stígunum. Markvisst hefur verið unnið að því að lagfæra stígana síðustu ár með aðstoð ýmissa sjálfboðaliðahópa og hefur mikið átak verið unnið á fjölförnustu gönguleiðunum. Engar sérstakar fjárveitingar hafa fengist frá ríkisvaldinu til þessa verkefnis en ýmsir sjóðir hafa styrkt vinnuna, s.s. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, Pokasjóður og Umhverfissjóður Landsbankans. Haustið 2010 voru stofnuð samtök sem kallast Vinir Þórsmerkur. Að því stendur Skógræktin, fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu á svæðinu og Rangárþing eystra. Hafa þessi samtök unnið að því að leita styrkja til stígaviðhalds sem og að bæta aðgengi að Þórsmörk með göngubrú yfir Markarfljót.

Þórsmerkursvæðið er nú ein af fallegustu náttúruperlum sem Íslendingar eiga. Segja má að gróðurfar Þórsmerkur sé líkt því gróðurfari sem klæddi um 40% landsins fyrir landnám og er ómetanlegt að eiga slíka gersemi á Suðurlandi. Þórsmörk og Goðaland eru einn af þjóðskógum landsmanna og er svæðið opið öllum til útivistar, allan ársins hring.

Texti: Hreinn Óskarsson