Magnús Fannar Guðmundsson, starfsmaður Skógræktarinnar í Þjórsárdal, kátur á fulllestuðum stafafuruv…
Magnús Fannar Guðmundsson, starfsmaður Skógræktarinnar í Þjórsárdal, kátur á fulllestuðum stafafuruvagni. Ljósmynd: Jóhannes H Sigurðsson

Jóhannes H Sigurðsson, aðstoðarskógarvörður Skógræktarinnar á Suðurlandi, skrifaði skemmtilegan og jólalegan pistil sem birtur hefur verið á vef Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Pistillinn er bæði skógarlegt og jólalegt innlegg svona rétt fyrir jólin og Jóhannes leyfði okkur að birta hann hér á skogur.is. Með honum fylgir jólakveðja frá Skógræktinni með óskir um nýtt og gjöfult skógræktarár!

Gefum Jóhannesi orðið.

Aðventan í skóginum

Það má segja að jólin hjá okkur í Skógræktinni byrji snemma á haustin eða oftast um miðjan október en þá förum við að höggva jólatrén. Byrjað er að leita að stórum jólatrjám, svokölluðum torgtrjám, sem bæjarfélög, fyrirtæki og stofnanir setja upp á torgum og eru látin standa skreytt og upplýst alla aðventuna. Þetta eru tré allt frá þremur og upp í tólf metra og getur verið heilmikil vinna að koma þeim út úr skóginum niður á plan þar sem flutningabíll kemst að þeim. Stundum þarf að leita að þeim út um allan skóg á misaðgengilegum stöðum og þá er notað vökvaspil aftan á traktor til að spila tréð út úr skóginum. Síðan eru þau tekin upp á viðarvagn, sem búið er að klæða að innan svo greinarnar fari ekki í hjólin á vagninum og þannig keyrð heim á plan.

Tíðarfarið hefur verið einstaklega gott til jólatrjáatöku þetta árið og ekki skemma björtu dagarnir með útsýni til Heklu. Ljósmynd: Jóhannes H SigurðssonEn stundum er hægt að finna öll trén nánast í sama reitnum. Þá er búið að undirbúa þann reit fyrir mörgum árum og hirða um trén með það til hliðsjónar að upp vaxi torgtré. Slíka reiti þarf að grisja mikið svo hvert tré standi frítt og þau nuddist ekki hvert upp við annað og passað að birki og víðir vaxi ekki upp í greinarnar og skemmi á þeim barrið. Stundum er nauðsynlegt að laga svolítið til stórt og fallegt tré sem kannski er með eina eða tvær skemmdar greinar svo það verði fullkomið og söluvænlegt, en þá er tekin grein neðst af trénu, borað fyrir henni þar sem hana þykir vanta og hún límd kirfilega. Torgtrén eru yfirleitt greni, sitkagreni og blágreni en þau halda barrinu vel allan veturinn þó þau séu hoggin snemma að hausti.

Um miðjan nóvember er svo byrjað að höggva heimilistrén. Þegar ég var unglingur að vinna hjá Skógræktinni voru nokkur þúsund tré hoggin í skógunum á Suðurlandi, í Þjórsárdal og Haukadal. Þá var stór hluti af skóginum á þeim aldri að hann hentaði vel til jólatrjáatöku. Það þurfti heilmikinn mannskap í þetta. Oft var mikill snjór og maður óð snjóinn upp fyrir hné með nokkur tré í eftirdragi, dröslaði þeim út að slóða þar sem þeim var safnað upp á kerru og keyrð heim. Þá stóð Skógræktin einnig fyrir sölu trjánna og var jólatréssalan í Gagnheiði á Selfossi og hjá Landgræðslusjóði í Reykjavík.

Nú er þetta með talsvert öðru sniði. Flest trén eru tekin á mjög afmörkuðum svæðum, reitum sem gróðursettir hafa verið til jólatrjáa, með mörgum slóðum svo aldrei sé langt að draga þau út, trén eru keyrð heim í stöð, þau hæðarflokkuð, strikamerkt, pakkað í net og sett á þar til gerð bretti og síðan flutt með flutningabíl í þær verslanir sem sjá um sölu trjánna. Einnig er orðið vinsælt hjá mörgum fjölskyldum að fara út í skóg og velja og höggva sitt eigið jólatré og skapa skemmtilega upplifun.

Skógræktin selur orðið langmest af furu, enda furan öndvegis jólatré, barrheldið og ilmandi. En einnig erum við með blágreni, rauðgreni og fjallaþin. Vinsældir jólatrjáa breytast eins og annað og sitt sýnist hverjum hvaða tegund er fallegust. En á mínu hálfdanska heimili þýðir ekki að bjóða upp á furu, enda Danir ekki vanir öðru en greni eða nordmannsþin. Þetta er alltaf skemmtilegt tímabil í skóginum, svolítið at og mikið að gera, en þó skiftir tíðarfarið miklu, því það er erfitt að athafna sig í skóginum og átta sig á útliti trjánna ef þau eru hjúpuð snjó. Því þökkum við fyrir góða tíð eins og við höfum fengið þetta haustið.

Torgtré komið heim í starfstöð Skógræktarinnar í Þjórsárdal. Ljósmynd: Jóhannes H Sigurðsson

Texti og myndir: Jóhannes H Sigurðsson
Vefvinnsla: Pétur Halldórsson