Lesið í skóginn - Þjórsárskóli.
Lesið í skóginn - Þjórsárskóli.

Starfsfólk Þjórsárskóla kom saman nú fyrir skömmu og sótti skógarnytjanámskeið Lesið í skóginn (LÍS) hjá Skógrækt ríkisins. Tilgangur námskeiðsins var að skoða hvernig nýta mætti efni úr þjóðskóginum í skólastarfi og til uppbyggingar á leik- og kennsluaðstöðu á skólalóðinni. Fyrri daginn var farið í tæknileg atriði varðandi tálgun og fundin verkefni fyrir skólastarf. Þar var unnið að hljóðfæragerð og búnir til stafakubbar úr birki til nota í lestrarkennslu þar sem form kubbanna réð því hvers konar stafur hann varð, auk þess sem sérhljóðarnir héldu berkinum en samhljóðarnir voru án hans. Hannaðar voru og búnar til frummyndir að verkefnum sem tengdust uppbyggingu á leik- og kennsluaðstöðu á lóðinni. Má þar nefna viðarkleyf, fléttaðar girðingar, bekki, bíl, stiklukubba og þrautabraut með margs konar ólíkum þrautum sem var mótuð að landslagi lóðarinnar. Farið var í Þjórsárdal og efni sótt sem síðan var unnið með þegar heim var komið. Settar voru upp grindur að fléttuðu girðingum, snyrtir mislangir stiklukubbar sem síðan verða grafnir niður með ákveðnu millibili, settir upp tveir bekkir, fjalhöggin efberkt, ræðupúlt, viðarkleyfur settur saman og tekið til efni í samatjald.

Allt starfsfólk skólans tók þátt í námskeiðinu og lýsti það ánægju sinni með skemmtileg, hagnýt og áhugaverð verkefni. Leiðbeinandi var Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri LÍS. Þess má geta að námskeiðið var haldið í tengslum við þróunarsamstarf Skógræktar ríkisins og skólans þar sem unnið er m.a. að því að tengja skólann við skóginn í Þjórsárdal með margvíslegum hætti, þar á meðal varðandi viðarnytjar. Starfsfólk skólans fór daginn fyrir námskeiðið í reiðtúr um skóginn sem m.a. varð til þess að starfsfólkið kynntist skóginum betur og sá um leið nýja möguleika á að tengja skólastarf við skóginn í framtíðinni.

Fleiri myndir frá vinnu Þjórsárskóla mjá sjá í myndasafni.