Uppgræðla við Reykholt. Leiðin upp á Sprengisand sem vörðuð var upphaflega sumrin 1905-1906 af Jóni …
Uppgræðla við Reykholt. Leiðin upp á Sprengisand sem vörðuð var upphaflega sumrin 1905-1906 af Jóni Þorkelssyni, Eiríki Sigurðssyni og Jóni Oddssyni. Vörðuvinafélagið endurhlóð vörðurnar árin 2002-2006.

Skógar og uppgræðsla

Þjórsárdalur er vinsæll staður til útivistar og gistingar. Þar er að finna fjölsótta ferðamannastaði s.s. Stöng og Gjána, Hjálparfoss, Háafoss, Þjórsárdalsskóg, Búrfellsvirkjun, sundlaugina við Reykholt og Sögualdarbæinn. Í dalnum eru fjölbreyttar göngu- og reiðleiðir, m.a. gönguleiðir sem eru sérhannaðar með aðgengi fatlaðra í huga. Skógrækt ríkisins hefur haft umsjá með skógrækt og uppgræðslu Þjórsárdals í tæplega 80 ár.

Eyðing byggðar og gróðurs – nýting skóga
Þjórsárdalur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er einn af sögufrægari dölum á Suðurlandi. Þar byggðist upp blómleg byggð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar sem eyddist árið 1104 í miklu öskugosi úr Heklu. Einhverjir þeirra rúmlega 20 bæja sem taldir eru hafa verið í Þjórsárdal byggðust aftur og voru í byggð einhverja áratugi eða aldir eftir gosið. Ofnýting lands,  hnignandi landgæði og fjöldi öskugosa úr Heklu varð þess valdandi að á 20. öld voru aðeins Skriðufell og Ásólfsstaðir í byggð norðan Gaukshöfða. Skógum hefur trúlega verið eytt í næsta nágrenni bæja í Þjórsárdal á fyrstu öldum byggðarinnar, en nóg var þó af skógi í Þjórsárdal eftir að byggðin eyddist.

Skógurinn lifði að mestu af hið mikla öskufall árið 1104 og var Þjórsárdalur frá þeim tíma og allt fram á 20. öld helsta forðabúr bænda í nokkrum hreppum á Suðurlandi af birkiviði til kolagerðar og eldiviðar. Bera örnefni víða um dalinn nöfn þeirra bæja sem áttu skógarítak á viðkomandi svæði, s.s. Hólaskógur og Núpsskógur. Skógar voru gegnum aldirnar nýttir til beitar bæði sumar og vetur og hefur fé haldið niðri nýgræðingi sem olli því að smám saman hurfu skógarnir. Þegar kom fram á 20. öld hafði nánast öllum skógum í dalnum verið eytt, nema lágvaxið kjarr var að finna í Skriðufells- og Ásólfsstaðaskógi, Búrfellsskógi og smáræði inn af Gjánni. Jarðvegur var horfinn í stærstum hluta dalsins og voru aðeins örfoka vikrar eftir.


Uppgræðsla og skógrækt hefst
Megináhersla skógræktarstjóra á fyrstu áratugum 20. aldar var verndun birkiskóga landsins. Var friðun birkiskóga m.a. tilgangurinn með kaupum Skógræktar ríkisins á jörðunum Skriðufelli árið 1939 og stórum hluta Ásólfsstaða árið 1962, auk þess að gróðursetja nytjaskóga. Eftir að Skriðufell var keypt var gerður makaskiptasamningur við Afréttarfélag Flóa og Skeiða um skipti á nyrðri hluta Skriðufellsjarðarinnar fyrir ógróna vikra Þjórsárdals allt upp í Háafoss vestan Fossár. Hófst þar með beitarfriðun Þjórsárdals. Lítið var gert í uppgræðslu á vikrunum fyrstu árin og var það ekki fyrr en upp úr 1960 að uppgræðsla með lúpínu hófst á vikrunum. Nokkrum árum áður eða um 1947 var byrjað að gróðursetja barrtré í skjóli birkitrjánna.

Margir hafa komið að uppgræðslu Þjórsárdalsvikra. Helst ber þar að nefna framlag Landgræðslu ríkisins og Landsvirkjunar, en mikið uppgræðslustarf fór fram í kringum Búrfellsvirkjun frá 1967 sem og með Þjórsárdalsvegi. Var uppgræðslustarfið með fram veginum unnið í samvinnu við Gnúpverjahrepp, Vegagerðina og Skógræktina. Landgræðslan græddi land víðar í Þjórsárdal, s.s. Skeiðamannahólma og við Reykholt með flugdreifingu. Seinna stóð Landgræðslan fyrir lúpínu- og  grassáningum í samvinnu við Skógrækt ríkisins.

Fjölmargir aðrir hafa komið að uppgræðsluverkefnum og gróðursetningu trjáplantna í dalnum. Má þar helst nefna Hekluskóga og Landgræðsluskógaverkefnið sem Skógræktarfélag Íslands og Skógræktarfélag Árnesinga hafa stýrt. Ferðaklúbburinn 4x4, Þjóðhildur og Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd hafa einnig tekið svæði í fóstur með góðum árangri. Stórir styrkir til uppgræðslu hafa borist á síðustu árum og má þar helst nefna að Landgræðslusjóður hefur veitt styrki úr Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson. Styrkir hafa og fengist úr fleiri sjóðum og nýst til gróðursetningar birkiskóga.


Grisjun og timburvinnsla
Barrskógar Þjórsárdals hafa vaxið úr grasi og eru hæstu tré nú orðin um 20 metra há. Helstu skógarafurðir úr skógum Þjórsárdals voru lengst af 20. öld í formi jólatrjáa, en eftir aldamót hefur grisjun barrskóga aukist mikið. Á hverju ári eru grisjaðir nokkur hundruð rúmmetrar timburs úr skógum Þjórsárdals og afurðirnar seldar m.a. sem arinviður, kolefnisgjafi í málmvinnslu, viðarkurl, timbur til smíða, efni í fiskihjalla ofl. Síðustu ár hefur verið byggð upp viðarvinnsla hjá Skógrækt ríkisins og skapar sú vinnslaa og skógarvinnan heilsárs atvinnu fyrir 2-4 menn.

Framtíð Þjórsárdals
Fram til ársins 2000 hafði verið gróðursettur skógur í tæplega 600 ha, aðallega vestan Sandár, og hundruð hektara grædd upp í dalnum. Eftir aldamót jókst gróðursetning og uppgræðsla mikið, aðallega að tilstuðlan Hekluskógaverkefnisins sem er samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins, í samvinnu Landsvirkjun og fjölda annarra. Bændur úr Gnúpverjahreppi, Flóa og Skeiðum hafa einnig grætt land á afréttum í Þjórsárdal með góðum árangri. Eftir aldamót hafa rúmlega 800 ha af örfoka vikrum verið græddir upp með kjötmjöli og tilbúnum áburði og birki verið gróðursett í tæplega 400 ha með ágætum árangri.

Á síðustu árum hafa birkiskógar sáð sér út um öll fjöll Þjórsárdals innan friðlandsins og víða myndað skógarþekju. Má því segja að uppgræðsla dalsins sé á góðum vegi og verður eftir 20-30 ár öðruvísi um að litast í dalnum. Góðar gönguleiðir eru þegar komnar um hluta skóga dalsins og má búast við að fleiri gönguleiðir verði gerðar á næstu árum. Ferðaþjónusta í dalnum mun aukast, byggt verður upp á nokkrum svæðum og gera má ráð fyrir að dalurinn verði gróðursæl ferðamannaparadís.


Texti og myndir: Hreinn Óskarsson