Nýlega undirritaði George Bush Bandaríkjaforseti lög sem heimila skógarþjónustu bandarísku alríkisstjórnarinnar (USDA Forest Service) að semja við einkaðila um umsýslu  þjóðskóga.  Fyrir slík verk verður greitt með rétti til að fella skóg og nýta timbur úr þjóðskógunum.

Þessi nýbreytni hefur fallið í grýttan jarðveg hjá umhverfisverndarsinnum.  Þeir óttast að þarna sé verið að opna ?bakdyrnar? inn í þjóðskógana, enda hefur viljað brenna við að
skógarnytjar í Bandaríkjunum hafi einkennst meir af skammtímasjónarmiðum
timburiðnaðarins heldur en langtíma markmiðum um skógvernd og sjálfbæra nýtingu.

Markmið stjórnvalda er einkum að reyna að ná tökum á þeim gríðarlega faraldri skógarelda sem geisað hafa í Arizona og víðar í suðvesturríkjunum undanfarin ár. Þar eru víðlendir skógar af gulfuru (Pinus ponderosa), sem er hávaxin, langlíf, þurrkþolin tegund. Áður en farið var fyrir ríflega einni öld að slökkva alla skógarelda á þessum slóðum voru þessi skógar gisnir og þéttleikinn ekki nema 30-50 tré á hektara. Undir trjánum var þá lítill undirgróður vegna tíðra, léttra skógarelda, en þeir fóru um á 3-5 ára fresti og kviknuðu oft vegna eldinga. Slíkir eldar ollu litlum skemmdum á fullvöxnum trjám en grisjuðu ungviðið.

Um 1850 var landið numið til landbúnaðar og var þá strax farið að þaulbeita skógana.  Við það snarminnkaði eldsmaturinn í undirgróðrinum og náttúrulegum skógareldum fækkaði.  Þegar komið var fram á tuttugustu öldina hófst mikið átak í að slökkva alla þá skógarelda.  Jafnframt þessu varð öflug nýliðun furu um 1920 sem að jafnaði gerist ekki nema á 200-300 ára fresti.

Þetta varð til þess að skógurinn er orðinn gífurlega þéttur, oft meira en 3000 tré á hektara með krónu í nokkrum þrepum eða hæðum.  Mynstur skógarelda á svæðinu hefur gjörbreyst í kjölfarið.  Í stað tíðra og smárra sinu- og kjarrelda, hefur ástandið hin seinni ár einkennst af hamfarakenndum stóreldum sem skilja eftir sviðna jörð og fallinn skóg á víðlendum flæmum.

Augljóslega er aðeins eitt til ráða; grisja þarf skógana mjög hraustlega og endurskapa hinn gisna skóg sem óx á þessum slóðum fyrir tíma hvíta mannsins.

Skógarþjónustan hefur gert nokkrar slíkar tilraunir sem gefið hafa mjög
góða raun, en hún hefur ekki fjárráð til að ráðast gegn vandanum af þeim krafti sem
þörf er á. Einkaaðilar vilja hinsvegar ekki ganga í grisjunarstörf nema að ljóst sé að þeir muni hagnast á því. Og þar liggur vandinn. Megnið af þeim trjám sem þarf að fella eru ekki nothæf nema í verðlitlar afurðir svo sem pappamassa, girðingarstaura og þess háttar en inn a milli eru stór gömul tré sem geta gefið af sér verðmætt timbur.  Nátturuverndarsinnar benda á með réttu að þessi tré eru vistfræðilega mikilvæg og ætti að skilja eftir við grisjun.  Ef fram fer sem horfir eru allur líkur á að skógarnir, að meðtöldum gömlu trjánum, eigi eftir að fuðra upp á næstu árum.  Því skal nú fórna hluta þeirra til að tryggja heildarviðgang skóganna.
  
Umræða um skógarnytjar í Bandaríkjunum einkennist af miklum öfgum.  Á meðan orðræðan byggist eingöngu á öfgakenndum yfirlýsingum í póstmódernískum stíl, engum málamiðlunum og þaðan af síður raunhæfum aðgerðum, er lítill grundvöllur fyrir lausnum á aðsteðjandi vandamálum. Þarna vegast með orðum á stórkarlaleg timburfyrirtæki, sem vilja helst stráfella heilu fjöllin og dalina, og hins vegar umhverfisverndarsinnar, sem vart mega heyra á skógarhögg minnst.  Ef þessi tillaga yrði til þess að koma á skipulagi sem við þekkjum frá Norðurlöndunum, þar sem einkaaðilar sjá aðallega um höggið og gera það vel, samfélagi, umhverfi og sjálfum sér til heilla, væri þarna komin raunhæf lausn á skógarelda vandanum.

Frétt:  Tumi Traustason, í doktorsnámi í skógarvistfræði við háskólann í Fairbanks, Alaska. 

Nánari upplýsingar má finna á:

 http://www.cpluhna.nau.edu/Biota/ponderosafire.htm