Mynd af pixhere.com
Mynd af pixhere.com

Fyrsta tréð í svokölluðum skírnarskógum þjóðkirkjunnar verður gróðursett í haust. Skógar þessir verða ræktaðir á kirkjujörðum víða um land og verkefnið er hluti af Grænu kirkjunni, umhverfisverkefni þjóðkirkjunnar.

Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag og rætt er við Pétur Markan, samskiptastjóra þjóðkirkjunnar. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, tilkynnti um áramót að þjóðkirkjan hygðist koma upp skírnarskógi og fram kemur í frétt blaðsins að nú sé kirkjuráð að útfæra hugmyndina. Lokaniðurstaðan verði kynnt á vormánuðum eða í sumar.

Verkefnið tengist sem fyrr segir hinni svokölluðu Grænu kirkju, umhverfisvitundarvinnu kirkjunnar. Pétur Markan segir að miðað við núverandi fjölda skírna verði þetta á bilinu þrjú til fjögur þúsund tré á ári. Markmiðið með verkefninu sé að tengja skírnina við umhverfisvernd og umhverfisvitund, að með hverju skírðu barni vaxi tré. Ákall sé eftir aðgerðum í umhverfismálum, sem séu jafnframt stærsta áskorun þessarar og komandi kynslóða.

„Einn af kostum kirkjunnar er að við eigum land víðs vegar um landið. Hugmyndin er að tengja ræktarlandið við hverja sókn til að hver og einn geti heimsótt skóginn á innan við klukkutíma,“ segir Pétur. Verður hvert tré merkt einstaklingnum sem skírður er. „Við erum að skoða töluvert mörg svæði sem eru vel til þess fallin að rækta skóglendi á. Á talsvert mörgum svæðum sem kirkjan á er skógrækt fyrir sem hægt er að bæta við.“ Í skóginum verður helst plantað annað hvort birki eða furu en jafnframt tekið mið af staðháttum og hvaða tegund henti best á hverjum stað. „Við förum þó ekki af stað með þetta nema í samráði við skógræktarfélög og aðra viðkomandi fagaðila,“ segir Pétur, í samtali við Fréttablaðið.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson