Íslenskur skógur að vetri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Íslenskur skógur að vetri. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin er þriðja vinsælasta ríkisstofnunin samkvæmt nýrri könnun Maskínu á viðhorfum lands­manna til fjörutíu ríkisstofnana. Jákvæðni fyrir stofnuninni hefur heldur aukist síðustu ár.

Í könnuninni var spurt hversu vel eða illa fólk þekkti til stofnananna og hversu jákvætt eða neikvætt það væri gagnvart hverri stofnun fyrir sig. Í mælingunni á jákvæðni lenti Skógræktin í þriðja sæti með eink­unnina 4,15 næst á eftir Landhelgisgæslunni sem fékk eink­unnina 4,37 og Veðurstofu Íslands með 4,36. Meðaleinkunn stofnananna 40 var 3,39.

Alls mældist 78,1 prósent fólks jákvætt fyrir Skógræktinni og neikvæð voru 2,7%. Til samanburðar mældist 71 prósent jákvætt fyrir Skógræktinni 2017 þannig að jákvæðni hefur aukist síðustu tvö árin samkvæmt könnuninni. Fjöldi neikvæðra er óbreyttur.

Línurit sem sýnir hvar Skógræktin lendir miðað við aðrar stofnanir í mati á viðhorfum fólks til stofnunarinnar og þekkingu þess á henni.Þegar skoðað er hversu vel fólk þekki til Skóg­rækt­ar­inn­ar kemur í ljós að 36,2 prósent segjast þekkja vel til stofn­un­ar­inn­ar en þessi tala nam 29,9 prósentum 2017.  Þá kváðust 15,5 prósent þekkja illa til Skóg­rækt­ar­inn­ar sem er talsvert færra en 2017 þegar talan var 25,9%. Fram kemur í úrvinnslu könnunarinnar að fylg­n­in milli viðhorfs fólks og þekkingar sé jákvæð sem þýði að eftir því sem fólk þekki betur til Skóg­rækt­ar­inn­ar, því jákvæðara sé viðhorf þess til stofn­un­ar­inn­ar.

Ekki var marktækur munur á viðhorfum fólks eftir kyni, aldri, búsetu, menntun, tekjum, hjúskaparstöðu eða heimilisgerð. Karlar virðast hins vegar þekkja heldur betur til Skóg­­­­rækt­ar­inn­ar en konur og þekkingin eykst marktækt með aldri. Ekki er marktækur munur á þekkingunni eftir búsetu, menntun eða öðrum þáttum sem mældir voru.

Niðurstaðan er sú að enn þurfi að efla fræðslu til almennings um Skógræktina, hlutverk hennar og verk­efni. Ekki er síst mikilvægt að ná betur til uppvaxandi kynslóða.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er tilviljanakennt úr Þjóð­skrá. Spurt var um rúmlega 40 stofnanir dagana 11.-30. janúar. Svarendur eru af mismunandi kynjum á aldr­i­num átján ára og eldri, hvaðanæva af landinu. Áminningar voru sendar nokkrum sinnum til þeirra sem ekki höfðu þegar svarað. Alls svöruðu 745 manns könnuninni og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.

Texti: Pétur Halldórsson

­