Stór viðarstafli í Hallormsstaðarskógi. Í forgrunni eru nokkuð stór lerkitré og fremst ung grenitré.…
Stór viðarstafli í Hallormsstaðarskógi. Í forgrunni eru nokkuð stór lerkitré og fremst ung grenitré. Snjóskellur á jörð.

Kemur til greina að skógarfjárfestar fái skattaívilnanir

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi þar sem skorað er á stjórnvöld að stórauka skógrækt hér á landi.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar segir koma til greina að beita skattaívilnunum til að fá lífeyrissjóði, fjárfestingarsjóði og einstaklinga til að fjárfesta í skógrækt hér á landi.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag, 25. apríl, og er grein blaðsins á þessa leið:

Það kemur til greina að beita skattaívilnunum til að fá lífeyrissjóði, fjárfestingasjóði og einstaklinga til að fjárfesta í skógrækt hér á landi að sögn Jóns Gunnarssonar þingmanns. Hann er fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að skora á stjórnvöld að stórauka skógrækt hér á landi. Jón segir að með því að velja rétta staði á landinu til að rækta skóg og rækta réttar trjátegundir geti fjárfesting í skógrækt skilað arði eftir 20 ár. Það þurfi því að skapa tímabundna hvata fyrir fjárfesta til að koma að skógræktarverkefnum. „Til að hætta fé í nýja fjárfestingarleið með langan biðtíma fram að fyrstu tekjum þarf að skapa skammtímahvata fyrir fjárfesta,“ segir Jón og bætir við að skattaívilnun þar sem fjárfesting í viðurkenndum skógræktarsjóði sé frádráttarbær frá skattstofni sé líkleg til að mynda þennan skammtímaávinning. Jón segir að að ýmsu sé að hyggja varðandi skógrækt hér á landi, ekki síst hvað varðar landmat. Eins og staðan sé í dag geti bændur farið út í skógræktarverkefni á jörðum sem henta ekki nógu vel til ræktunar. Ef menn ætli að gera skógrækt að alvöru atvinnugrein sé þetta eitt af því sem þurfi að skoða sérstaklega.

Jón Loftsson skógræktarstjóri segir að menn viti hvaða tegundir hafi þrifist best í hverjum landshluta, enda hafi menn orðið 100 ára reynslu af skógrækt hér á landi. Með hlýnandi loftslagi sé þó nauðsynlegt að auka rannsóknir því hlýnun geti haft gríðarleg áhrif á vöxt og framgang skóga. Hann segir að skógrækt hafi skilað um 100 milljónum í tekjur árið 2008 en skili nú um 350 milljónum á ári. Tekjuaukningin sé tilkomin vegna grisjunar á elstu skógunum. Þau tré sem hafi verið höggvin hafi verið nýtt í ýmsar afurðir sem hægt hafi verið að selja. Á sama tíma og skógræktin hafi aflað sér tekna með þessum hætti hafi framlög til skógræktar úr ríkissjóði dregist saman um 40 prósent. „Þetta hefur þær afleiðingar að litlu hefur verið plantað af trjám síðustu fimm árin. Það þýðir að eftir hálfa öld kemur tíu ára eyða í þróun skóga hér á landi,“ segir Jón Loftsson.

Sjá fréttina á vef Vísis