"Það sem koma skal er kolefnisbókhald" - Pistill Kristjönu Bergsdóttur í Speglinum í Ríkisútvarpinu, mánudaginn 23. júní 2003


Gróður- og jarðvegseyðing er alvarlegasti umhverfisvandi Íslendinga. Landið hefur tapað nær öllum sínum skógum og kjarri og hugsanlega meira en helmingi gróðurþekju sinnar á síðastliðnum 1100 árum. Aðeins ríflega 11% landsins eru flokkuð með lítið eða ekkert rof samkvæmt heildaryfirlit um jarðvegsrof á Íslandi.

Gróður- og jarðvegseyðing á borð við þá sem orðið hefur hér á landi er nánast óþekkt í löndum með svipað loftslag. Hliðstæður má helst finna í heitu og þurru loftslagi, þar sem beitarálag er mikið.  Við búum s.s við umhverfisvandamál sem er eyðimerkurmyndun. 

96% skóglendis og 50% gróðurs hér á landi hefur eyðst frá landnámi ásamt miklum jarðvegi sem þýðir gífurlegt tap á lífrænu efni. Hér er svo sannarlega verk að vinna fyrir okkur Íslendinga við að stöðva landhnignun og endurheimta landkosti.

Það er bjart framundan í þeim efnum þar sem uppgræðsla og skógrækt hér á landi er orðin atvinnugrein en á ekki lengur allt sitt undir framtaki og framsýni frumkvöðla, einyrkja og skógræktarfélaga. Við höfum á að skipa fjölda vel menntaðra vísindamanna í þessum fræðum sem stunda nauðsynlegar ransóknir. Skógrækt og landgræðsla á Íslandi er einnig mikilvæg í alþjóðlegu tilliti sem kolefnisbindandi aðgerð til að vinna gegn gróðurhúsaáhrifum og þannig hluti af umræðum um loftslagssáttmála Sameinuðu Þjóðanna..

Kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt felst í því að umbreyta koltvísýringi  í  lífræn efni sem geymd eru í gróðri og jarðvegi.  Ígildi um 1600 milljóna tonna af koltvísýringi hafa glatast frá landnámsöld og því eru aðstæður til kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu  hér á landi óvenju góðar.

Umbreyting koltvísýrings í lífræn efni í gróðri og jarðvegi gerir sama gagn og að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Kolefni (C) er meginuppistaðan í lífmassa skógarins
og íslenskar rannsóknir benda til þess að allmikið kolefni bindist í jarðvegi og gróðri við landgræðslu og skógrækt hér á landi.

Heildarflatarmál núverandi skóglendis á Íslandi er 1,4% . Til að koma til móts við losun koltvísýrings af mannavöldum á Íslandi þyrftum við að auka það svæði upp í 4% af flatarmáli Íslands. Sem þýðir að við þurfum að fimmfalda þau afköst sem eru í nýskógrækt í dag. 

Það sem koma skal er að mengandi iðnaður og fiskiskipaflotinn haldi kolefnisbókhald með það í huga að koma út á sléttu með því að stuðla að bindingu á móti losun.
Kostnaður við að binda hvert tonn með skógrækt og landgræðslu hér á landi er talinn vera á bilinu 900-2000 kr.

Einstaklingar geta með góðu móti haldið kolefnsibókhald. Rafmagn á Íslandi er svokölluð hrein orka ? svo stærsti þátturinn er farartæki. Rekstur fjöskyldubíls í 30-40 ár þýðir að fjölskyldan þarf að stuðla að landgræðslu u.þ.b. eins hektara lands eða planta þúsund trjám á því tímabili. Eftir að búið er að planta - sér tréð um ákveðna bindingu árlega sem er þá inneign í bókhaldinu.

Skógræktarfélögin í landinu eru kjörinn valkostur ef ekki er nægilegt pláss í kringum húsið eða sumarbústaðinn.

Gangi okkur öllum vel að græða landið í sumar.