Skjáskot úr myndbandi eins nemanda Listaháskólans á námskeiði Ólafs Oddssonar haustið 2013
Skjáskot úr myndbandi eins nemanda Listaháskólans á námskeiði Ólafs Oddssonar haustið 2013

Verkefnisstjóri „Lesið í skóginn“ vonar að námskeiðið verði áfram í boði hjá Listaháskólanum

Ólafur Oddsson, sem stýrir verkefninu Lesið í skóginn hjá Skógrækt ríkisins og Reykjavíkurborg, segir gott fyrir hönnunarnema að kynnast skóginum og viðarafurðum hans. Skilningurinn vaxi á nýtingarmöguleikum þeirra viðarafurða sem í boði eru hér á landi vegna grisjunar.

Í haust kenndi Ólafur á námskeiði hjá Listaháskóla Íslands sem skipulagt var í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur. Nemar á þriðja ári á hönnunarbraut kynntust þarna skóginum og efniviðnum sem úr honum fæst með því að tálga í tré og tileinka sér ferskar viðarnytjar með ýmsu móti. Á námskeiðinu var þeim kennt að lesa í ólíkar viðartegundir, þekkja eiginleika og form trjánna, að þurrka við og meðhöndla yfirborð hans með mismunandi efnum og aðferðum.

Vettvangur námskeiðsins var skógurinn í Heiðmörk sem er í umsjón Skógræktarfélags Reykjavíkur. Nemendur fengu ákveðin skylduverkefni og áttu að gera tækniæfingar eftir forskrift kennarans en að því búnu þróuðu þeir sín eigin verkefni og kynntu þau. Að námskeiðinu loknu héldu nemarnir áfram að þróa hugmyndir sínar, fóru á sérstakt framleiðslunámskeið en líka á námskeið í kynningu og markaðssetningu. Þar unnu þau fjölbreytt kynningarefni með texta, ljósmyndum og myndböndum til að fylgja eftir verkefnum sínum. Vinnan í skóginum nýttist því með margvíslegum hætti í námi þeirra við Listaháskólann. Kynningarstarf nemanna skilaði sér í góðri umfjöllun í fjölmiðlum.

Ólafur fullyrðir að þessi grunntenging við skóginn og viðarafurðir hans sé afar góður grunnur fyrir nemendur á hönnunarbraut þar sem skilningur þeirra vaxi á nýtingarmöguleikum þeirra viðarafurða sem í boði eru hér á landi vegna grisjunar. Hann vonar að þetta námskeiðshald verði áfram í boði hjá Listaháskólanum.

Ólafur Oddsson er í hálfu starfi sem fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins og hálfu hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. En starfið er eitt og óskipt, skógartengt útinám í skóla- og frístundastarfi.

Hér eru nokkrir tenglar á þau tímarit sem gripir nemendanna hafa verið birtir í. Þar má fræðast frekar um nám þeirra.

Frame, eitt virtasta hönnunartímaritið í Bretlandi, birti þessa umfjöllun á sinni síðu.

Domus, eitt virtata ítalska hönnunarblaðið.

Rendez-wood, Bloggsíða nemendanna með texta, ljósmyndum og myndböndum af verkefnunum.

Og hér má sjá skemmtilegt myndband sem nemendurnir gerðu: