Í vikunni lauk námskeiði á vegum Lesið í skóginn sem haldið var í samvinnu við Handverkshúsið í Reykjavík. Námskeiðið sótti fólk úr ýmsum áttum en dagskráin var hefðbundin byrjendadagskrá þar sem lögð var áhersla á tálgutæknina í ferskum viðarnytjum. Farið var í skóg og lesið í form og eiginleika einstakra trjátegunda, fjallað um skógarhirðu, grisjun, skógarvistfræði og sótt efni í einstök verkefni. Bryndís Þórarinsdóttir list- og verkgreinakennari við Flataskóla í Garðabæ nýtti námskeiðið til að þróa verkefni fyrir skólastarf og fæddust margar hugmyndir að slíkum verkefnum eins og sjá má á myndunum. Halldór Bragi Sigurðsson kom með örsmá áhöld sem faðir hans hafði unnið (sjá mynd) svo segja má að stutt sé fyrir hann að sækja handverkshæfileikana. Á einni myndinni má sjá Birgi Guðjónsson lækni glíma við að tálga krumma með exi á fjalhögginu en efnið er sótt í viðjugreinaklof.


frett_25022010-(4)

frett_25022010-(2)

frett_25022010(1)


Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktar ríkisins.