Reyniviður, sjöstjarna og birki í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Reyniviður, sjöstjarna og birki í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin hefur lagt þrjár spurningar fyrir þau tíu framboð sem bjóða fram í öllum kjördæmum landsins. Sex flokkar hafa nú skilað svörum við spurningunum.

Í aðdraganda kosningabaráttunnar komu flokkarnir sér saman um að ekki skyldi tekið við fleiri en þremur spurningum frá hagsmunaaðilum. Hér á eftir fara svör flokkanna við hverri spurningu fyrir sig og eru þau birt eftir stafrófsröð flokkaheitanna. Berist svör frá fleiri flokkum verður þeim bætt við hér jafnóðum.

Smellið á hverja spurningu fyrir sig til að sjá svörin frá flokkunum.

1. Hefur flokkurinn markað sér stefnu um skógrækt á Íslandi fyrir næsta kjörtímabil?

Framsóknarflokkurinn

Svar: Stofnað verði nýtt landbúnaðar- og matvælaráðuneyti þar sem horft verði heildstætt á skógrækt og landgræðslu, matvælaöryggi og landbúnað. Framsókn vill styðja betur við landgræðslu og skógrækt m.a. til að mæta betur skuldbindingum okkar í loftslagsmálum. Þá telur flokkurinn brýnt að yfirfara löggjöf um vernd og nýtingu og skipulag þannig að ekki skapist grá svæði eða þversagnir við landnýtingu og ræktun.

Miðflokkurinn

Svar: Já, Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á skógrækt, bæði almenna skógrækt til útivistar og nytjaskógrækt. Miðflokkurinn leggur til að skógrækt verði fjórfölduð á næstu árum til kolefnisbindingar og yrði eitt stærsta framlag Íslendinga til loftslags- og umhverfismála. Þannig gætum við bundið mestalla eða alla losun okkar á CO2 á tiltölulega skömmum tíma og ekki þurfti mikið land undir ef notaðar yrðu réttu trjátegundirnar. Þingmaður flokksins Karl Gauti Hjaltason hefur þegar lagt fram tillögu þess efnis fyrir þingið. Jafnframt þessu átaki myndi ávinningur verða á fjölmörgum öðrum sviðum, atvinna myndi aukast, nýsköpun og byggðir styrkjast. Ávinningurinn yrði margþættur, með tímanum gætum við þannig orðið sjálfbær hvað varðar timbur og sparað þannig gjaldeyri og mengandi flutninga. Jafnframt myndi lýðheilsa batna við mannbætandi umgengni um gjöfula skóga.

Píratar

Svar: Stefna Pírata um skógrækt er hluti af metnaðarfullri stefnu flokksins í umhverfis- og loftslagsmálum, þar sem skógrækt er ein af þeim aðferðum sem efla þarf til að binda kolefni til framtíðar. Stefnan var talin sú besta af Ungum umhverfissinnum á dögunum.

Samfylkingin

Svar: Samfylkingin hefur það í stefnu sinni að ráðast skógræktarátak og auka framlög til málaflokksins. Raunar lagði Samfylkingin til á Alþingi á síðasta ári að það yrðu lagðir fjármunir í skógrækt strax á þessu ári og með því farið í kraftmikið átak í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis. Skógrækt er mikilvæg til kolefnisbindingar, skapar atvinnu og hefur jákvæð áhrif á vistkerfi og samfélag.

Sjálfstæðisflokkurinn

Svar: Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Til þess þarf uppgræðslu örfoka lands og nýrækt skóga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað um að tækifæri séu til eflingar skógræktar sem atvinnuvegar á viðskiptalegum forsendum. Skógrækt og vinnsla afurða er í þróun. Skógrækt og landgræðsla vega þungt í bindingu kolefnis. Endurskipuleggja þarf starfsumhverfi gróðurverndarmála.

Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Það verður best gert í samstarfi við þá sem hafa grætt og ræktað landið um aldir á grundvelli eignaréttar. Brýnt er að endurskoða lög um skógrækt og landgræðslu. Kolefnisbinding fæst ekki bara með að planta trjám heldur er einnig með því að grisja þá skóga sem fyrir eru.

Sósíalistaflokkur Íslands

Svar: Sósíalistaflokkur Íslands hefur markað sér stefnu um skógrækt á Íslandi fyrir næsta kjörtímabil. Aukin skógrækt – með öllum þeim félagslega, umhverfislega og hagræna ávinningi sem henni fylgir fyrir núlifandi og óbornar kynslóðir landsmanna –fellur vel að umhverfis- og loftslagsstefnu Sósíalistaflokksins. Þar er gerð krafa um „að náttúran og lífríki hennar sé ávallt í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum sem hana varða og að réttur komandi kynslóða til heilsusamlegs lífs sé ávallt sett ofar sjónarmiðum um fjárhagslegan gróða einstaklinga og fyrirtækja“. Einnig kemur þar fram áætlun um „að græða landið, endurheimta votlendið og auka trjárækt til kolefnisjöfnunar landsins“. Þeim fjármunum sem til þarf verður varið í að vernda landið og rækta það. Aukin þekja skóga á Íslandimiðar að því að gera landið gjöfulla, skýlla, að auka lífsgæði almennings, að fjölga atvinnutækifærum í dreifðum byggðum og að aukin skógrækt verði jafnframt snar þáttur í því að landsmenn sýni þá ábyrgð sem þeim ber í loftslagsmálum og nái kolefnishlutleysi innan fárra áratuga. Skógrækt er einkar heppileg leið til þess að vinna bug á því umhverfisvandamáli sem ásótt hefur landsmenn og náttúru Íslands frá landnámi: Jarðvegseyðing og hnignun jarðvegsgæða. Með því að beita skógrækt í stórauknum mæli sem aðgerð í landgræðslu, mætti vinna fullan sigur á eyðingaröflunum þannig að þetta vandamál, – sem er jafngamalt Íslandssögunni – heyri sögunni til. 

Í „Tíunda tilboði til kjósenda“ sem lagt var fram 25. ágúst sl. („Kerfisbreytingar ekki loftslagsbreytingar“) segir: „Sem stendur er losun [gróðurhúsalofttegunda] frá landi stærsta uppspretta losunar frá Íslandi og mun meiri enþekkist í öðrum löndum Evrópu. Því væri auðvelt að breyta því til hins betra. Víða um land væri hægt að takmarka beit sauðfjár, m.a. með því að stöðva lausagöngu búfjár og snúa vörn í sókn með stórátaki í landgræðslu og skógrækt.

Sósíalistar vilja koma upp stuðningskerfi fyrir landeigendur og stórsókn í atvinnuuppbyggingu á landinu öllu þar sem markmiðið er aukin binding og verðmætaaukning í skóglendi Íslands. Nytjaskógar eru vistkerfi fyrir fjölbreytt lífríki en geta einnig gefið af sér nothæft byggingarefni svo hægt sé að binda kolefni í mannvirkjum og draga um leið úr innflutningi á sementi sem losar talsvert við framleiðslu.
Lyklar að árangri:
….
Grænt hagkerfi: „Ný græn gjöf“: Er hluti atvinnuframboðstryggingar þar sem allir sem geta og vilja, fá störf í skógrækt og uppbyggingu íslensku skógarauðlindarinnar. Bændur sem geta og vilja draga úr sauðfjárrækt, munu ganga að rausnarlegu styrkjakerfi sem aðstoðar landeigendur við að hefja græna verðmætasköpun í nýjum greinum, þ.á.m. skógrækt.
“ 

Viðreisn

Svar: Já, Viðreisn vill stuðla að stóraukinni skógrækt til timburframleiðslu á völdum svæðum um allt land. Viðreisn leggur líka sérstaka áherslu á að auka útbreiðslu náttúruskóga samhliða því. 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Svar: Já, í stefnu VG um loftslagsvá og náttúru segir að efla þurfi rannsóknir á landhnignum og áhrifum landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni. Klára þurfi landsáætlanir í skógrækt og landgræðslu og koma þeim í framkvæmd. Einnig þurfi að efla stjórnsýslu náttúruverndarmála með sameiningu stofnana sem fara með verkefni náttúruverndar og meta kosti þess og galla þess að málefni landgræðslu og skógræktar tilheyri þessari sömu stofnun. Í stefnu VG um landbúnað segir enn frekar að við skipulag lands þurfi að huga að því að fjölþætt markmið geta verið með skógrækt, hvort sem þar er um að ræða endurheimt vistkerfa, ræktun kolefnisskógar til bindingar eða skógrækt til iðnaðarnota. Huga þurfi að jafnvægi milli þessarar markmiða, samræmi við náttúruverndarsjónarmið og framtíðarásýnd lands. Það er afstaða VG að ágengum framandi tegundum skuli ekki dreift í óspilltri náttúru.

2. Hvaða stefnu hefur flokkurinn um aðgengi fólks að skógum um allt land og nýtingu þeirra til útivistar? Er tekið mið af því við mótun stefnu flokksins um t.d. heilbrigðis-, mennta- og félagsmál?

Framsóknarflokkurinn

Svar: Ekki er fjallað sérstaklega um þessi mál í stefnu flokksins en litið þannig á að skógræktarlög tryggi aðgengi að þjóðskógum og fræðslu um þá og að unnin sé stefna um aðgengi almennings að skógum í landsáætlun um skógrækt.

Miðflokkurinn

Svar: Útivistarskógar með blönduðum trjátegundum eru víða í kringum þéttbýli og þá oft í umsjón skógræktarfélaganna. Miðflokkurinn vill halda áfram á þeirri braut að opna þessa skóga fyrir almenning svo unnt sé að njóta fjölbreyttrar náttúru þeirra. Jafnframt þarf að gera umsjónaraðilum kleift að sinna þar umhirðu og gera þá aðgengilegri almenningi. Þar er átt við stígagerð, grisjun, aðstöðu fyrir almenning og hópa sem hafa mismunandi þarfir, t.d. grillaðstöðu, fuglaskoðun, sveppa- og berjartínslu og jafnvel jólatrjáræktun og margt fleira.

Píratar

Svar: Píratar hafa alltaf verið sterkur málsvari almannaréttar og að tryggja frjálsa för fólks um náttúruna. Þá hefur flokkurinn lengi lagt áherslu á eflingu virkra ferðamáta, hvort heldur sem er í borgarlandslagi eða úti í náttúrunni, bæði vegna jákvæðra áhrifa á náttúruna og lýðheilsuáhrifa.

Samfylkingin

Svar: Ekki er fjallað sérstaklega um aðgengi fólks að skógum í stefnu flokksins. En flokkahópur jafnaðarmanna í Norðurlandaráði sem Samfylkingin er partur af lagði fram tillögu í Norðurlandaráði sem var samþykkt, um að koma ætti á norrænni framkvæmdaáætlun á sviði útivistar. Norðurlandabúum sé mikilvægt að geta notið náttúrunnar og eiga greiðan aðgang að skóglendi og óbyggðum svæðum, auk þess sem hreyfing utandyra getur verið heilsueflandi.

Sjálfstæðisflokkurinn

Svar: Ferðafrelsi á að gilda um allt Ísland þar sem lögð er áhersla á fræðslu um umgengi Íslands. Að fólk fái að ferðast um landið og stunda útivist er lýðheilsumál fólksins í landinu. Mikilvægt er að standa vörð um náttúruna og að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til hagsbóta, bættra lífsgæða og velferðar. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á forvarnir og er efling lýðheilsu stór þáttur í því.

Sósíalistaflokkur Íslands

Svar: Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Með skírskotun til jöfnuðar og mannhelgi er aðgengi almennings að skógum til útivistar og til bættrar lýðheilsu mikilvæg – og þá einkum fyrir þá hópa sem búa við bágari efnahag. Skógar nærri íbúðarsvæðum í þéttbýli nýtast sérstaklega vel lágtekjuhópum – sem eiga þess ekki kost að kaupa þjónustu líkamsræktarstöðva, hafa ekki efni á ferðalögum innanlands eða utan, eiga ekki sumarbústaði og hafa ekki ráð á að dvelja fjarri heimilum sínum utan langs vinnutíma. Útivera í skógum er sérstaklega holl í svölu og vindasömu landi, því í skóginum nýtur fólk skjóls.

Stór hluti okkar lágtekjuhópa er fólk sem nýlega hefur flust til Íslands frá öðrum löndum og vinnur hér láglaunastörf. Margt þessa fólks hefur alist upp í skógi vöxnum löndum og nýtir skógana í meira mæli en innfæddir Íslendingar til útiveru, m.a. til sveppatínslu. Þessu fólki verður að sýna samkennd, m.a. með því að veita þeim möguleika á útivist í skógum sem víðast. Standa verður vörð um almannarétt landsmanna til að njóta útivistar í öllum skógum, jafnt skógum í eigu ríkisins, sveitarfélaga eða á löndum einkaaðila.

Viðreisn

Svar: Umhverfis- og loftslagsmál (þ.m.t. náttúruskógar og ræktaðir skógar) fléttast sem grænn þráður inn í allar stefnur Viðreisnar, þ.m.t. stefnur heilbrigðis-, mennta- og félagsmála. Aðgengi að náttúrunni til útivistar og upplifunar er mikilvæg lýðheilsu landsmanna og við styðjum heilshugar að þjóðskógar landsins séu opnir almenningi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Svar: Það er mikilvægt að aðstaða til iðkunar íþrótta og útivistar sé til staðar sem víðast. Það á við um skóga eins og önnur svæði. Það eru lífsgæði að geta sótt í útivist í skóga. Víða hefur slík uppbygging tekist vel, t.a.m. í nágrenni þéttbýlis, og mýmörg dæmi þess að fólk nýti sér skógana til ánægju og yndisauka. VG hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu um aðgengi fólks að skógum um allt land og nýtingu þeirra til útivistar en öll tækifæri til almennra heilsueflingar, ekki síst úti í náttúrunni styðja áherslur VG um aukna velsæld í samfélaginu. Þá má benda á að umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram á Alþingi viðauka við Landsskipulagsstefnu vorið 2021, þar sem sérstök áhersla er á eflingu lýðheilsu í skipulagi.

3. Telur flokkurinn að breyta þurfi hlutfallslegum áherslum skógræktar, auka eða minnka:
          -ræktun og útbreiðslu birkiskóga og -kjarrs?
          -ræktun nytjaskóga til að byggja upp timburauðlind?
          -ræktun skóga sem aðgerð gegn hraðfara loftslagsbreytingum?

 Framsóknarflokkurinn 

Svar: Flokkurinn telur að sinna þurfi öllum þessum verkefnum og leggja meðal annars áherslu á verkefni þar sem hægt er að sameina önnur markmið sjálfbærrar landnýtingar og landbúnaðar skógrækt.

Miðflokkurinn

Svar:

 • Birkiskógar eru fallegir og auðvitað á að vinna að því að rækta þá áfram. Þeir gegna einnig mikilvægu hlutverki við að binda örfoka land, þó þeir bindi ekki mikið kolefni, sem slíkir.
 • Algjörlega, sbr. svarið spurningu nr. 1 hér að ofan. Ræktun þeirra sparar gjaldeyri, eykur nýsköpun og styrkir byggð um allt land.
 • Sem sérstakt átaksverkefni til að binda kolefni og uppfylla skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Sjá ítarlegra svar við spurningu nr. 1.

Píratar

Svar: Píratar telja ekki rétt að taka ákvarðanir um þessi hlutföll á pólitískum forsendum. Þegar þessar áherslur er settar þarf að byggja á faglegum greiningum með tilliti til þeirra markmiða sem stefnt er að, skipulagsáætlana, varúðarreglunnar og þeirra umhverfis-, loftslags- og samfélagslegu áhrifa sem fylgja ræktuninni.

Samfylkingin

Svar:

 • Í stefnu Samfylkingarinnar kemur fram að auka þurfi ræktun og útbreiðslu birkiskóga og kjarrlendis.
 • Ekki er tekin afstaða til ræktunar nytjaskóga í stefnu Samfylkingarinnar.
 • Í stefnu Samfylkingarinnar kemur fram að það þurfi að fara í stóreflingu í skógrækt.

Sjálfstæðisflokkurinn

Svar:

 • Halda áfram uppgræðslu en ekki auka hlutfallið á kostnað annarrar skógræktar.
 • Mikilvægt að leggja enn frekari áherslu á þetta og höfum við lagt fram og fengið samþykktar þingsályktanir á Alþingi um þessar áherslur okkar.
 • Við viljum í samstarfi við þá sem hafa þekkingu og land til ræktunar skóga fara í raunhæfar aðgerðir í kolefnisbindingu. Það þarf að gera fjárhagslega hvata til að skógarbændur njóti ávinnings af þeim árangri sem þeir ná gegn loftlagsbreytingunum.

Sósíalistaflokkur Íslands

Svar: Sósíalistaflokkur Íslands lítur ekki svo á, að meta eigi verðleika trjátegunda eftir uppruna - ekki frekar en verðleikar fólks skuli metnir eftir því frá hvaða landi það er upprunnið. Hann telur engin rök hníga að því að telja beri eina trjátegund mikilvægari einungis vegna þess að hún tilheyri „gömlu ættunum í landinu“ og hafi ekki nýlega flust til landsins. Flokkurinn aðhyllist fjölbreytni og jöfnuð.

Aukin útbreiðsla birkiskóga og birkikjarrs getur verið vænleg leið til þess að klæða land skógi, verjast með því uppblæstri og jarðvegsrofi og vernda með því fokgjarnan íslenskan eldfjallajarðveg. En margar innfluttar trjátegundir geta gegnt sama hlutverki. Varasamt getur reynst að treysta aðeins á eina trjátegund, ekki síst á tímum óðahlýnunar, þegar búast má við að meðalhiti ársins á Íslandi hækki fyrir aldarlok um 3-5°C, og að hér nemi land enn fleiri nýir sjúkdómar og skaðvaldar á birki en nú er raunin. Betra er að leggja ekki öll eggin í eina körfu og treysta ekki á að eina trjátegund, þó hún hafi ein myndað skóga á Íslandi fyrir landnám Íslands. Vonandi er sú hætta ekki fyrir hendi og vonandi getur birki gegnt fyrra hlutverki sínu með góðum árangri þrátt fyrir nýtt loftslag, nýja skaðvalda og nýja sjúkdóma. Aðrar trjátegundir sem hingað hafa borist með mönnum síðustu öldina munu engu að síður gegna mikilvægu hlutverki í því að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind og að ná tilbaka öllu því ógnarmagni CO2 sem heimurinn hefur losað út í andrúmsloftið á undanförnum öldum. Margar þessara trjátegunda vaxa hraðar en birkið, binda meira kolefni en birkið og geta skapað mun meiri verðmæti og fjölbreyttari atvinnutækifæri en einnar-tegundar birkiskógar og birkikjarr.

Sósíalistaflokkur Íslands telur því ástæðulaust að mæla fyrir breyttum áherslum í tegundavali eða markmiðum skógræktar eða að raða „a“, „b“ og „c“ eftir meintu mikilvægi. Áherslurnar eigi að verða mikil aukning á þekju skóga í skóglausasta landi Evrópu, fleiri störf í framtíðinni tengd skógrækt og úrvinnslu skógarafurða og stóraukin binding kolefnis í íslenskum skógum – allt í senn og óháð því hvaða trjátegund verður fyrir valinu.

Viðreisn

Svar:

 • Já, Viðreisn styður markmið Bonn áskorunarinnar sem stjórnvöld samþykktu nýverið um að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins í stað 1,5% nú.
 • Já, Viðreisn vill stuðla að stóraukinni skógrækt til timburframleiðslu á völdum svæðum um allt land.
 • Viðreisn vill sjá bæði stóraukna útbreiðslu náttúruskóga sem og stóraukna skógrækt til timburframleiðslu sem aðgerð til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga en einnig til að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga eða náttúruvár. Skógar henta vel til að draga úr foki gosefna eða annarra rykefna, þeir dragaa úr flóðahættu, skýla umferð á þjóðegum landsins, auka skjól í byggð og bæta vatnsmiðlun svo nokkuð sé nefnt.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Svar:

 • VG leggur ríka áherslu á vernd og sérstöðu íslenskrar náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni hennar. Það eru ótvíræð samlegðaráhrif annars vegar milli loftslagsaðgerða sem varða kolefnisbindingu og hins vegar aðgerða á sviði gróður- og jarðvegsverndar og aðgerða í þágu verndar lífríkisins og endurheimtar vistkerfa. VG hefur lagt áherslu á að fjármagnaðar aðgerðir stuðli að því að skuldbindingar Íslands í alþjóðlegum samningum séu uppfylltar á fleiri en einu sviði í einu. VG telur að hægt sé að auka enn frekar áhersluna á ræktun og útbreiðslu birkiskóga og -kjarrs hérlendis. Tilkynnt var um það á degi íslenskrar náttúru, þann 16. september 2021, að íslensk stjórnvöld hafi tekið svonefndri Bonn-áskorun og staðfest markmið Íslands um að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú. Verkefnið, sem hefur verið í undirbúningi sl. tvö ár í ráðherratíð umhverfis- og auðlindaráðherra VG, er liður í áratugi Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa.
 • Nytjaskógrækt er mikilvæg og vaxandi búgrein hérlendis. Í henni felast mikil tækifæri til kolefnisbindingar og eflingar byggða. Á yfirstandandi kjörtímabili hafa fjárframlög til skógræktar á lögbýlum verið aukin úr 225 m.kr. árið 2017 í 393 m.kr. í ár . VG lítur á ræktun nytjaskóga sem hluta af vaxandi fjölbreytni í landbúnaði og að stýra eigi nytjaskógrækt í skipulagi þannig að tillit sé tekið til landslags og náttúruverndar.
 • VG telur að auka þurfi endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis svo lögbundið markmið um kolefnishlutleysi náist eigi síðar en árið 2040. Í stefnu hreyfingarinnar um loftslagsvá og náttúru er þess getið að þörf sé á skilvirku eftirliti og utanumhaldi um alla notkun ágengra framandi tegunda og skal notkun þeirra aðeins leyfð þar sem við á og rask á vistkerfum þannig takmarkað. VG telur að sóknarfæri séu í ræktun skóga sem aðgerð gegn loftslagsvánni en jafnframt brýnt að það sé einungis gert þar sem við á og horft til jafnvægis milli mismunandi markmiða með skógrækt, samræmis við náttúruverndarsjónarmið og framtíðarásýndar lands.
Sett á vef: Pétur Halldórsson