Karl Gústaf Svíakonungur sæmdi Guðrúnu Gísladóttur prófessor Wahlberg-gullorðunni

Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlýtur Wahlberg-gullverðlaun sænska mann- og landfræðifélagsins í ár, Svenska Sällskapet för Antropologi och Geografi – SSAG. Verðlaunin hlýtur hún fyrir vísindaframlag sitt á sviði landfræði. Guðrún tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn í sænsku konungshöllinni í gær, mánudaginn 14. apríl.

Guðrún lauk doktorsprófi í landfræði frá Stokkhólmsháskóla árið 1998 og hefur gegnt stöðu prófessors við Háskóla Íslands frá árinu 2006. Rannsóknir hennar hafa m.a. snúið að náttúrulandfræði, gróður- og jarðvegseyðingu, sjálfbærri nýtingu lands og náttúruvá. Þá hefur Guðrún á síðustu árum m.a. sinnt rannsóknum á bindingu kolefnis í jarðvegi en slíkar rannsóknir eru mjög þýðingarmiklar, ekki síst nú á tímum loftslagsbreytinga.

Sænska mann- og landfræðifélagið, sem er afar virt, var stofnað árið 1878. Markmið þess er að stuðla að rannsóknum í mannfræði og landfræði og úthlutar það m.a. styrkjum til vísindamanna. Þá gefur félagið út tímarit, skipuleggur málþing og ráðstefnur og verðlaunar vísindamenn sem þykja hafa skarað fram úr á sviði mannfræði og landfræði.

Gullverðlaun félagsins, sem Guðrún hlýtur, eru kennd við Johan August Wahlberg, þekktan sænskan náttúruvísindamann og landkönnuð sem uppi var á fyrri hluta 19. aldar. Í rökstuðningi stjórnar félagsins segir að Guðrún hljóti verðlaunin fyrir vísindaframlag til landfræði, ekki síst þekkingu sína og rannsóknir á gróður- og jarðvegseyðingu og fyrir að stuðla að auknu samstarfi landfræðinga á alþjóðavettvangi.

Verndari verðlaunanna, Karl Gústaf Svíakonungur, sæmdi Guðrúnu orðunni. Í haust verður haldið sérstakt málþing í Svíþjóð Guðrúnu til heiðurs þar sem hún verður aðalfyrirlesari.