Verkefnisstjórinn Fredrik Ingemarson frá SLU, tengiliðurinn Karin Hornay frá Akademikonferens og  Pe…
Verkefnisstjórinn Fredrik Ingemarson frá SLU, tengiliðurinn Karin Hornay frá Akademikonferens og Peter Högberg, rektor SLU, sýna möppur úr birkiviði sem innihalda umsókn Svía um að fá að halda heimsþing IUFRO 2024. Ljósmynd af vef SNS: Lucy Kibwota SLU

Alþjóðasamtök skógrannsóknastofnana, IUFRO, hafa ákveðið að heimsþing samtakanna 2024 verði haldið í Svíþjóð. Í tengslum við þingið verða í boði ferðir til hinna norrænu landanna auk Eystrasalts­ríkjanna og má búast við hundruð gesta velji að koma til Íslands til að kynna sér skógrækt og skóg­rannsóknir hér.

Táknmynd heimsþings IUFRO 2024Stokkhólmur varð hlutskarpastur í vali stjórnar IUFRO úr þeim stöðum sem bitust um að fá að halda þingið 2024. Í frétt á vef Norrænna skóg­rannsókna, SNS, er haft eftir Jonas Rönn­berg, ritara SNS, að þetta sé fengur fyrir Norðurlöndin og Evrópu alla. Norðurlöndin hafi sótt um það í sameiningu að heimsþing IUFRO yrði haldið í Stokkhólmi og þingið verði eins og risastór sýningargluggi fyrir skógargeirann á Norður­löndunum og í Eystrasaltsríkjunum en ekki síður fyrir SNS. Vænta megi aukins áhuga á skógrækt í tengslum við þinghaldið, ekki síst áhuga ungs námsfólks á skógartengdu námi. Sömuleiðis felist í þessu tækifæri fyrir skóg­rannsóknir á Norðurlöndunum til að koma verkefnum sínum og niðurstöðum á framfæri.

SNS hefur unnið að því að undirbúa jarðveginn og skapa tengsl um öll Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sem nýtast munu við að skipuleggja til dæmis þær skoðunarferðir sem verða í boði í tengslum við heimsþingið. Jonas segir að fram undan sé mikið skipulagsstarf. Svíar reka skrifstofu SNS um þessar mundir en hún hleypur reglulega til milli Norðurlandanna.

Peter Högberg, rektor sænska landbúnaðarháskólans SLU, segir að í Svíþjóð séu unnar skógrannsóknir á heimsmælikvarða og nú gefist færi á að koma þeim á framfæri til umheimsins og þar með að ýta undir þróun skógargeirans sænska, ekki síst að laga rannsóknir og menntun í skógvísindum og umhverfismálum að þörfum framtíðarinnar. Meginviðfangsefni eða þema heimsráðstefnu IUFRO 2024 verður framtíðar­greining og nýsköpun í skógrækt. Ráðstefnan sjálf fer fram í Stockholmsmässan, stærstu ráðstefnu­miðstöð á Norðurlöndunum.

Heimsþingið er haldið á fimm ára fresti og auk Stokkhólms bitust París og Moskva um að fá að halda við­burðinn 2024. Næsta heimsþing verður haldið í Curitiba í Brasilíu 29. september - 5. október á næsta ári. Á þessum ráðstefnum eru tekin fyrir viðfangsefni á mjög breiðu sviði skógræktar, skógvísinda, land­notkun­ar og umhverfismála. Þingin sækja um 5.000 manns hvaðanæva úr heiminum, fulltrúar fyrirtækja, opinberra aðila, háskólastofnana og  félagasamtaka. Þegar þingið í Stokkhólmi verður sett haustið 2024 verður tæp öld liðin frá því að Svíar héldu það síðast. Það var árið 1929.

Íslendingar fá sinn skerf af undirbúningsvinnunni enda er gert ráð fyrir því að til Íslands verði skipulagðar skoðunarferðir í tengslum við heimsþingið. Miðað við fjölda þátttakenda á heimsþingum IUFRO má búast við að mörg hundruð þingfulltrúar velji að koma til Íslands. Jafnvel hefur verið talað um hátt í eitt þúsund manns. Það á eftir að koma í ljós en nú þegar ákvörðunin um þingstaðinn liggur fyrir hefst undirbúningur þess sem til Íslands heyrir.

Texti: Pétur Halldórsson