Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta í dag skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal febrúarmánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af físisvepp.

Sveppur mánaðarins var myndaður í Öskjuhlíð í Reykjavík. Físisveppir eða físibelgir eru peru- eða stautlaga belgsveppir sem vaxa í skóg- og mólendi. Oft er erfitt að greina á milli tegunda. Fullþroskuð aldin eru opin í toppinn og spúa skýi af gróum út í loftið við minnsta hnjask.

Heimild: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur

Dagatal Skógræktarinnar 2021 er aðgengilegt á rafrænu formi á vef Skógræktarinnar. Annars vegar er hefðbundið dagatal sem t.d. má prenta út. Hins vegar eru skjámyndir fyrir hvern mánuð ársins. Þessum skjámyndum má hlaða niður til uppsetningar á skjáborði tölvu og þar með er dagatal viðkomandi mánaðar alltaf innan seilingar.

Dagatal Skógræktarinnar 2021

Texti: Pétur Halldórsson