Veljum vörur með merki samtakanna Rainforest Alliance og verndum skóga

Samtökin Rainforest Alliance létu fyrir nokkru gera myndband til hugvekju um það sem við neytendur getum gert til að hamla gegn skógareyðingu í heiminum. Við getum haft áhrif með því hvaða vörur við veljum í verslunum og hvaða mat við borðum.

Neytendur hafa ef til vill tekið eftir merki með mynd af froski sem er að finna á sumum neysluvörum. Þetta er merki samtakanna Rainforest Alliance sem berjast fyrir verndun skóglendis í heiminum, að skógareyðing verði stöðvuð og í staðinn stækki skógarnir á ný. Neysluhyggja nútímans ýtir undir að skógum sé eytt svo framleiða megi nautakjöt, sojabaunir í dýrafóður og fleira. Umtalað er hvernig regnskógum er eytt í Indónesíu og landið notað til pálmatrjáaræktunar. Undir það ýtir spurn heimsmarkaðarins eftir pálmaolíu sem mikið er notuð í ýmiss konar matvælaframleiðslu, ekki síst sælgætisiðnaði og framleiðslu skyndibitafæðis, snakks og þess háttar.

Smellið hér til að horfa á myndbandið.

Vefsíðu Rainforest Alliance má skoða hér.