Hæsta tré af amerískri kastaníu sem vitað er um í Norður-Ameríku. Tréð er ríflega 35 metra hátt og f…
Hæsta tré af amerískri kastaníu sem vitað er um í Norður-Ameríku. Tréð er ríflega 35 metra hátt og fannst nýlega í villtum skógi í Maine-ríki. Þetta er spennandi fundur fyrir áhugamenn um endurreisn tegundarinnar í náttúrlegum heimkynnum sínum. Mynd: Susan Sharon MPBN

Eykur vonir um að endurgera megi forna kastaníuskóga Norður-Ameríku

„Chestnuts roasting on an open fire,“ söng Nat King Cole í einu af frægustu jólalögum sögunnar. Ósviknar amerískar kastaníuhnetur eru hins vegar sárafágætar nú orðið en á því gæti orðið breyting. Fundist hefur myndarlegt tré af amerískri kastaníu sem vekur vonir um að rækta megi upp yrki sem hefði mótstöðuafl gegn þeim sveppasjúkdómi sem þurrkað hefur tegundina að mestu út í náttúrlegum heimkynnum hennar.

Tréð myndarlega fannst í skógi í vestanverðu Maine-ríki og mun vera það stærsta sem fundist hefur á seinni tímum á þeim slóðum þar sem víðáttumiklir kastaníuskógar uxu á öldum áður.

Amerísk kastanía, Castanea dentata, er hraðvaxta og beinvaxta tegund og var fyrrum eftirsótt timburtré. Fólk sem hefur verið t.d. í New York borg um jólaleytið hefur ef til vill rekist á götusala sem buðu ristaðar kastaníuhnetur en það eru ekki hnetur af amerískri kastaníu heldur evrópukastaníunni, Castanea sativa. Þær eru samt sem áður ekki síður gómsætar og ilmandi. Ameríska kastanían óx áður víða um austanverð Bandaríkin frá Maine til Georgíu, allt þar til skaðvaldur barst þangað frá Asíu og lagði flestöll trén að velli.

Sjúkdómur þessi er sveppur sem talið er víst að borist hafi til Bandaríkjanna með asískri kastaníutegund. Sveppurinn heitir á latínu Cryphonectria parasitica og ameríska kastanían hafði ekki mótstöðuafl gegn honum eins og sú asíska. Tréð sem fannst í áðurnefndum skógi í Maine gefur hins vegar vonir um að einhver amerísku kastaníutrjánna hafi þrátt fyrir allt nægilega mótstöðu til að þola sveppinn. Þar með glæðast vonir manna um að tegundin geti hjarnað við og farið að breiðast út á ný með góðri hjálp.


Þetta umrædda hrausta kastaníutré vex í skógi í hinu fámenna sveitarfélagi Lovell í Maine og nú fyrr í desembermánuði komu blaðamenn og ljósmyndarar þar saman ásamt félögum úr bandaríska kastaníusjóðnum, American Chestnut Foundation. Tilgangur ferðarinnar var að staðfesta tilvist amerískrar kastaníu í villtum skógi og mælingar á trénu. Fjallað var um málið víða, meðal annars á útvarpsstöðinni National Public Radio, NPR.

Ummál trésins er vissulega ekki mikið. Það mælist rétt ríflega 40 sentímetrar í brjósthæð. Tréð ætti því ekki að skera sig sérstaklega úr í skóginum fyrir sverleika eða fanga athygli vegfarenda í skóginum nema ef vera skyldi fyrir sérstæð blöðin. Þau eru aflöng og tennt en sömuleiðis eru blómin sérstæð, aflöng og hvít og trén geta verið alsett blómum stuttan tíma á vorin. Á miðjum vetri er hins vegar hvorki að finna laufblöð né blóm á trénu þótt sölnaðar leifar geti legið á skógarbotninum.

Brian Roth, skógfræðingur við Maine-háskóla, segir að þótt þetta tiltekna  tré sé ekki svert sé það einstakt á okkar dögum fyrir það hvað það sé hátt. Í viðtali við NPR  segist hann telja að tréð sé um 100 ára gamalt. Það sé ríflega 35 metra hátt og þar með hæsta ameríska kastanía sem vitað sé um í Norður-Ameríku.

Elstu menn eru sagðir muna eftir því þegar fjallshlíðar í Appalachia-fjöllum voru hvítar af blómum á ákveðnum tíma vors líkt og snjóað hefði á skógana. Og þannig var einmitt stóra kastaníutréð í Lovell þegar það fannst. Með því að leita á blómgunartíma tegundarinnar, sem varla er nema vika, gátu menn komið auga á tréð innan um önnur tré í skóginum, segir Roth. Hann segir að lifandi erfðaefni trésins verði varðveitt í genabanka. Allt sé þetta liður í því stóra verkefni bandaríska kastaníusjóðsins að endurrækta hina horfnu kastaníuskóga Norður-Ameríku.


Sjóðurinn hefur innan sinna vébanda um 6.000 sjálfboðaliða sem taka þátt í þessuerfiða og flókna verkefni. Meiningin er í fyllingu tímans að gróðursetja tegundina vítt og breitt um hið forna útbreiðslusvæði hennar. Eitt hliðarverkefnaí öllu þessu eru tilraunir sem unnið er að við að erfðabreyta tegundinni og ná þannig fram mótstöðu gegn sveppnum.

Lisa Thomson, formaður sjóðsins, líkir amerísku kastaníunni við smælingja. Allir hafi samúð með smælingjum og þannig hafi verkefnið fengið stuðning. Auk þess þyki fólki spennandi að í framtíðinni geti það gerst að þessi tegund lífveru sem horfið hefur að mestu úr skógum álfunnar spretti þar á ný. Þótt félagar sem starfi fyrir sjóðinn muni ekki upplifa það sjálfir að líta yfir hávaxna kastaníuskóga geti þeir yljað sig við þá tilhugsun að það muni afkomendur þeirra gera. Það sé nægileg hvatning til áframhaldandi starfs að þessu göfuga markmiði.

Þessi uppörvandi frétt frá Norður-Ameríku gæti dugað sem jólaguðspjall fyrir skógræktarfólk hér á Íslandi þar sem mikið verk er óunnið við að klæða landið skógi á ný. Með henni óskar vefurinn skogur.is lesendum sínum gleðilegra jóla með von um frjósamt og árangursríkt skógræktarár 2016.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: In The Maine Woods, A Towering Giant Could Help Save Chestnuts


Chestnuts Roasting on an Open Fire - Nat King Cole