Skógrækt og skógræktarmál hafa ekki verið fyrirferðarmikil í yfirstandandi kosningabaráttu, hvort sem það stafar af þverpólitískri samstöðu eða þverpólitísku áhugaleysi um okkar mál.
Þó hefur verið gleðileg undantekning þar á; snarpar ritdeilur milli tveggja Skagamanna á síðum Morgunblaðsins, þar sem grein sem birtist eftir Herdísi Þorvaldsdóttur var kveikjan og Samfylkingin blandaðist síðan inn í deilurnar.
Kær kveðja, Aðalsteinn

Nærri hundrað ára barátta fyrir daufum eyrum (Mbl., sunnudaginn 13. apríl, 2003 - Bréf til blaðsins)

Í BYRJUN tuttugustu aldarinnar var ráðinn fyrsti sandgræðslustjóri á Íslandi. Var það gert til að stemma stigu við miklu sandfoki af stórum örfoka svæðum víðsvegar á landinu. Margar jarðir höfðu lagst í eyði vegna sandsins sem kom til vegna ofbeitar og uppblásturs í kjölfarið og fleiri voru í hættu. Síðan hefur baráttan gegn skelfilegri gróðureyðingu í landinu okkar staðið í hundrað ár með ómældum kostnaði. Eitthvað hefur áunnist fyrir atorku landgræðslunnar og landgræðslustjóra, eins og hann heitir í dag, auk þess sem áhugasamir einstaklingar hafa margir lagt sitt af mörkum, en eyðingaröflin hafa þó alltaf vinninginn.
Á meðan rányrkja og hjarðbúskapur er stundaður er þetta nánast óvinnandi vegur. Það mætti líkja því við að keppst væri við að prjóna dýra peysu, meðan stöðugt væri rakið neðan af henni jafnóðum.
Enn þann dag í dag er allt of mikil beit búfjár á rýnandi gróðurlendi. Offramleiðsla á kjöti er til vandræða og hún er á kostnað landsins og ríkissjóðs.
Í stað þess að stöðva þessa offramleiðslu og taka á málinu af framsýni og viti var í örvæntingu ráðinn markaðsstjóri fyrir fimm árum til að reyna að fá útlendinga til að kaupa kjötið sem er afgangs og enginn vill hér heima.
Hann fékk 25 milljónir á ári í verkefnið, það er 125 milljónir í allt. Í haust var þessi samningur endurnýjaður í önnur fimm ár. Á sama tíma fékk skógræktin af náð 20 milljónir. Er þetta hægt? Mér er spurn, hvað vinnst? Jafnvel þó sölustjóranum takist að skapa markað fyrir kjötið höfum við ekki efni á að framleiða það, fórnarkostnaðurinn er of mikill. Gróðurþekjan og gróðurmoldin eru dýrasta eign þjóðarinnar, því án hennar verður landið ekki byggilegt og þaðan af síður vistvænt.
Við gætum eins vel selt útlendingum gróðurtorfurnar beint og skilið sárin eftir.
Í grein í Morgunblaðinu 18. október sl. er sagt frá því að útflutningur á umframkjöti stefni í 1.500 tonn á þessu ári. 40 tonn fara á Bandaríkjamarkað þar sem hæst verð fæst fyrir þau. Eftir útreikningum á útflutningskostnaði og öðrum kostnaði sem til fellur í Bandaríkjunum er hann samtals 595 kr. á kíló. Bandaríkjamenn greiða 650 fyrir kílóið, þá eru eftir 55 krónur til að standa straum af vinnslu, slátrun og markaðssetningu, fyrir utan kostnað vegna launa sölufulltrúans. Þetta er fáránlegra en tárum taki.
Að vísu eiga svína- og kjúklingabændur í vandræðum líka vegna offramleiðslu á kjöti, en þessar skepnur eru ekki fóðraðar á gróðri landsins svo offramleiðslan er vandamál bændanna.
Það er sauðkindin sem er okkar sameiginlega vandamál þar sem það eru afkomendur okkar sem þurfa að taka afleiðingunum af óþarfa skemmd á landinu og rýrnandi landgæðum.
Það eru ráðamenn sem geta sett lög um umgengni við landið og við verðum að þrýsta á þá að stöðva þessa hringavitleysu. Það á að girða skepnurnar inni í beitarhólfum í stað þess að setja girðingar í kringum gróðurinn og meðfram vegunum.
Ræktunarbúskapur með skepnum í beitarhólfum er eina vitið og eina leiðin til að vinna á móti eyðileggingunni, aðeins þannig getum við af alvöru tekið til við að rækta upp skemmdasta land í Evrópu og þó víða væri leitað.
Stjórnmálamenn verða að taka af skarið og snúa vörn í sókn, en enn hefur enginn flokkur lofað að beita sér fyrir stöðvun rányrkjunnar. Ég lýsi eftir slíku loforði og hvet síðan kjósendur til að flykkja sér um þann flokk sem sýnir slíkan kjark í þágu landsins og komandi kynslóða.

HERDÍS ÞORVALDSDÓTTIR, leikari.


Lýst eftir stjórnmálaflokki (Mbl. fimmtudaginn 24. apríl, 2003 - Bréf til blaðsins)

HERDÍS Þorvaldsdóttir hefur verið dugleg við skriftir að undanförnu, um uppblástur, ofbeit og þátttöku okkar landsmanna í ferlinu, með beingreiðslum til bænda.
Ég er henni innilega sammála og þakka henni þessi skrif. Hér með skora ég á alla landsmenn að lesa þessar greinar og einnig vil ég taka undir með lokaorðum Herdísar í Morgunblaðsgreininni frá því á sunnudaginn var, og auglýsi hér með líka eftir stjórnmálaflokki sem vill taka þessi ótrúlegu mál inn í kosningabaráttuna, með því að upplýsa okkur um hvað þeir ætlast fyrir á næstu árum. Á að halda áfram á þessari braut, að borga með ofbeit og umframframleiðslu og fórna þar með enn frekar viðkvæmum gróðri landsins?
Svo eru það líka hrossin. Hvað með þau? Ætlum við að halda áfram að láta þau naga gróðurinn niður í rót um leið og þau hola jarðveginn? Er ekki kominn tími á beitarhólf fyrir öll húsdýr? Er ekki tími hjarðbúskapar liðinn undir lok hjá flestum menningarþjóðum?

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR, Melteigi 4, Akranesi.


Margrét og Herdís - Flokkurinn er fundinn (Mbl., fimmtudaginn 8. maí, 2003 - Aðsendar greinar)

SUNNUDAGINN 13. apríl sl. ritaði Herdís Þorvaldsdóttir, leikkona, bréf til Morgunblaðsins, þar sem hún talar niður til bænda og sauðkindarinnar. Í hennar augum virðast öll rofabörð á landinu vera af völdum sauðkindarinnar og bænda sem hana hafa alið í gegnum aldirnar. Báðar þessar spendýrategundir eru mikil lýti á þjóðfélaginu og að hennar mati eiga þær ekki heima í menningarsamfélaginu á Íslandi við upphaf 21. aldar.
Sumardaginn fyrsta ritaði Margrét Hauksdóttir grein í Morgunblaðið og tók undir orð Herdísar. Í greinum sínum auglýstu þær stöllur báðar eftir stjórnmálaflokki eða stjórnmálamanni sem er tilbúinn til að taka það á stefnuskrá sína að beita sér fyrir aukinni landgræðslu og helst að útrýma sauðkindinni og sauðfjárbændum á landinu. Ég held að ég sé búin að finna flokkinn fyrir þær stöllur en það hlýtur að vera Samfylkingin með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í fararbroddi. Af hverju? Skv. auglýsingu frá landkjörstjórn 28. apríl sl. skipar leikkonan Herdís Þorvaldsdóttir 21. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. Hún hlýtur að aðhyllast stefnu flokksins sem hún býður sig fram fyrir, eða tekur hún bara sæti á listanum vegna þess að helsta baráttumál Samfylkingarinnar er að koma ríkisstjórn Davíðs Oddssonar frá völdum og koma Ingibjörgu í forsætisráðherrastól, vegna þess að kona hefur ekki gegnt því embætti á Íslandi.
Einnig vil ég benda þeim stöllum á, að á landnámsöld þegar landið var skógi vaxið milli fjalls og fjöru (svo segja sögurnar) var meðalhitastig á landinu mun hærra en það er núna og gróður þreifst mun betur á hálendinu þá en nú. En þegar veðurfar er kaldara eru það viðbrögð náttúrunnar að valda rofi á landinu, ekki var t.d. mikill gróður á landinu fyrir 10.000 árum við lok ísaldar þegar landið var allt jökulsorfið. Náttúran hefur sína hringrás og því hef ég þá sannfæringu að landið muni gróa aftur. Ég vil í því samhengi benda á að fjöldamargir sauðfjárbændur sem og aðrir bændur eru duglegir við að græða landið upp svo varla eru þeir alslæmir.
Herdís minntist einnig á það í grein sinni að umframframleiðsla á kjöti hérlendis er mikil og birgðir miklar. Neyslumynstur landsmanna á kjöti hefur breyst mikið, meðal annars hefur neysla á kindakjöti minnkað um 20 kíló á íbúa á 20 ára tímabili en á sama tíma hefur neysla á "hvítu" kjöti aukist um 25 kíló á íbúa. "Hvíta" kjötið er framleitt að stórum hluta á innfluttu fóðri en ekki alið á gróðri landsins. Þess vegna finnst Herdísi í lagi að framleiða það en útrýma sauðkindinni vegna þess að hún er "okkar sameiginlega vandamál þar sem það eru afkomendur okkar sem þurfa að taka afleiðingunum af óþarfa skemmd á landinu og rýrnandi landgæðum", svo ég vitni beint í grein hennar.
Myndirnar af rofabörðunum sem Herdís birtir oft með greinum sínum eru nær allar af hálendi landsins. Ég vil benda henni á að það er sáralítill hluti sauðkinda landsins sem gengur á þessum slóðum. Þær ganga á gróðursælu landi í heimahögum. Lambakjötið gæti varla verið eins góð matvara eins og mörgum finnst ef lambið nærðist á mold á hálendinu eins og myndirnar í greinum Herdísar gefa til kynna.
Í 73. gr. stjórnarskrárinnar segir: "Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar." Ég hef mínar skoðanir og þær stöllur Herdís og Margrét hafa sínar skoðanir. En er nú ekki nóg komið, Herdís, af áróðri gegn sauðkindinni og bændum? Þótt forfeður okkar hafi lifað á landsins gæðum voru þeir bara að bjarga sér og það hefðir þú einnig gert hefðirðu verið í þeirra sporum. Í dag eru búskaparhættir aðrir og betri en áður fyrr og því minni hætta á gróðureyðingu, nema af völdum óblíðra náttúruafla.

Eftir Eyjólf Ingva Bjarnason. Höfundur er nemi við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.


Margrét "Hauksdóttir" (Mbl., laugardaginn 10. maí, 2003 - Bréf til blaðsins)

EYJÓLFUR Ingvi Bjarnason skrifaði grein í blaðið í dag, 8. maí, þar sem hann upplýsti mig um hvaða flokk ég ætti að kjósa. Þakka ég honum kærlega fyrir það. Þar græddi Samfylkingin mitt atkvæði. Ég var í svo miklum vafa. Góðar svona atkvæðaveiðar.
1. Mig langar til að benda honum á að ég er Jónsdóttir en ekki Hauksdóttir.
2. Hvar segi ég að ég vilji útrýma bændum og sauðkindinni?
3. Það var hitastigið sem lækkaði við það að gróðurinn hvarf en ekki öfugt.
4. Veist þú að það er talið að 75% landsins hafi verið þakin gróðurhulu við landnám? Í dag eru 75% landsins gróðurlaus. Stutt í algjöra eyðimörk. Er ekki ástæða til að hafa áhyggjur?
Ég vildi bara leiðrétta þennan misskilning hjá unga manninum. Mér finnst það leiðinlegt þegar fólk eignar mér eitthvað sem ég ekki á, meira að segja nýjan föður.

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR, Melteigi 4, Akranesi.