Sjálfboðaliðar lyfta grettistaki

Óvíða hefur tekist jafnvel til við umhverfisbætur en í Þórsmörk segir Hreinn Óskarsson, sviðstjóri hjá Skógræktinni, í frétt sem birtist á baksíðu Morgunblaðsins í dag. Þar er fjallað um sjálfboðastarf við stígagerð og landbætur sem unnið er árlega í Þórsmörk og á nágrannasvæðum. Komið hefur verið upp merkjakerfi sem eykur öryggi ferðafólks ef óhöpp verða og flýtir fyrir björgun.

Sigurður Bogi Sævarsson blaðamaður skrifar fréttina og ræðir við Hrein. Umfjöllunin er á þessa leið:

„Þórsmörkin er öll að gróa upp og göngustíganetið þar er virkilega flott. Óvíða á landinu hefur tekist jafn vel til í umhverfisbótum,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni. Nýlega er lokið sumarstarfi undir merkjum verkefnisins Þórsmörk trail volunteers sem starfrækt er ávegum Skógræktarinnar.Tugir sjálfboðaliða komu í Þórsmörk og dvöldust þar frá tveimur allt upp í sex vikur og sinntu viðhaldi og merkingu stíga, smíðuðu tröppur og brýr á nokkrum stöðum og þar fram eftir götunum. Vinnu þessari stýrir Charles J. Goemans, starfsmaður Skógræktarinnar, en fyrsti hópurinn kom á svæðið árið 2012.

Skurkur á Laugavegi

Í sumar voru í þessu sjálfboðna starfi unnar þrjú hundruð vinnuvikur, eða rúmlega sex ársverk, í Þórsmörk, á Goðalandi og öðrum nærliggjandi stöðum. Fyrst var áherslan á verkefni á láglendi en síðustu sumur hefur fólk verið að færa sig inn til fjalla, svo sem í gerð stíga upp á Valahnjúk í Langadal, það kunna útsýnisfjall.

„Núna í júlí og ágúst var tekinn ágætur skurkur í framkvæmdum á syðsta hluta Laugavegarins; fráHúsadal í Þórsmörk norður að Álftavatni. Víða þurfti að moka í stígana þar sem jarðvegi hafði skolað út, sumstaðar voru sett þrep og ræsi og svo framvegis. Núna er þessi leið orðin eins og best má verða,“ segir Hreinn. Hann getur þess ennfremur að við göngustíga hafi verið settar upp stikur sem hver hafi sitt hnit inn í kortagrunn. Því geti ferðamenn sem villast eða slasast gefið upp númer stikunnar sem þeir eru við sem auðveldi leit og björgun.

Framkvæmdir falla inn í landið

Sjálfboðaliðarnir sem komu í Þórsmörk er fólk víðsvegar að úr veröldinni. „Þetta verkefni hefur verið kynnt á ýmsum vefjum og við fáum jafnan fjölda umsókna. Fjöldi fólks kýs að verja sumarleyfinu í svona verkefni og fer þá víða um heiminn. Við erum því að fá fólk sem kann til verka. Stundum hef ég sagt að svo smekklega sé staðið að gerð stíga að þeir falli 100% inn í landið. Framkvæmdirnar eru því ósýnilegar,“ segir Hreinn. Bætir við að þetta sjálfboðna starf sé mjög þýðingarmikið. Ef verktakar væru fengnir til yrði kostnaðurinn mikill; raunar svo að þessi þörfu verk myndu liggja óbætt hjá garði. Því verði haldið áfram á þessari braut næstu árin.

„Við höfum fengið til þessa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, og svo fengið stuðning og verið í samvinnu við Ferðafélag Íslands, Útivist, Kynnisferðir, Trex, Farfugla og fleiri. Núna eru alls 90 kílómetrar gönguleiðar komnir í gott lag. Margt í Þórsmörk var þó bágborið eftir Eyjafjallajökulsgosið árið 2010 þegar aska lá yfir öllu. Henni skolaði þó fljótlega út og með stígagerðinni og öðru getur svæðið nú borið aukna umferð ferðamanna, sem eru að öllum líkindum nú þegar komnir vel yfir hundrað þúsund gesti árlega,“ segir Hreinn Óskarsson.

Beðið eftir brú

Lengi hefur verið stefnt að gerð göngubrúar yfir Markarfljót í Þórsmörkina úr innanverðri Fljótshlíð. Með slíku á að draga úr slysahættu, en vöð á ánum á leiðinni inn í Mörk eru varasöm og þar hafa mörg óhöpp orðið. Leitað er að peningum til að hefjast megi handa, en hönnun brúarinnar og skipulagsmál henni viðvíkjandi hafa verið til lykta leidd.