Í sumar hefur verið unnið að stígaviðgerðum í Goðalandi, sér í lagi á stígnum sem liggur upp á Fimmvörðuháls. Voru stígar orðnir mjög illa farnir og farnir að valda alvarlegum jarðvegs og gróðurskemmdum á svæðinu. Er verkefnið unnið á vegum Skógræktar ríkisins og Vina Þórsmerkur sem eru hagsmunasamtök ferðaþjónustuaðila á Þórsmerkursvæðinu, Rangárþings Eystra, Skógræktar ríkisins og almennings. Hefur það notið stuðnings frá Ferðamálastofu, Pokasjóði, Vinnumálastofnun, sjálfboðaliðahópum Umhverfsistofnunar og Kynnisferðum. Hefur Ferðafélagið Útivist lánað húsnæði og eldunaraðstöðu undir hópana.

Erfitt er að koma efni til stígaviðgerða upp með stígnum enda um einstigi að fara og engin ökutæki sem komast upp brekkurnar í Goðalandi. Því var gripið til þess ráðs að leita eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að flytja efni upp á s.k. Foldir sem eru ofan Kattahryggja sem margir kannast við. Í síðustu viku mættu Landhelgisgæslumenn á þyrlunni TF-LÍF, fluttu kurl, greinar og timbur upp á fjall. Gátu þeir nýtt tækifærið til að æfa krókflug á þyrlu eða sling eins og það er kallað meðal Gæslumanna. Skógræktarmenn og aðrir aðilar verkefnisins eru afar þakklátir fyrir aðstoð Landhelgisgæslunnar við verkið.

Eins og meðfylgjandi myndir sýna er landslag á Goðalandi mikilúðlegt og erfitt yfirferðar.

frett_16082011_20

frett_16082011_22

frett_16082011_23

frett_16082011_24

frett_16082011_25


Myndir: Sveinn Rúnar Traustason og Hreinn Óskarsson

Texti: Hreinn Óskarsson