Arnór, sem hér stendur við unga eik á Mógilsá, segir að ef vextir lækka verði skógrækt mun hagkvæmar…
Arnór, sem hér stendur við unga eik á Mógilsá, segir að ef vextir lækka verði skógrækt mun hagkvæmari. Ljósmynd: Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Nýskógrækt eða ræktun skóga á skóglausu landi hefur lengi verið viðurkennd aðferð til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda með bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að gera Ísland kolefnishlutlaust árið 2040.

Arnór Snorrason segir að vegna loftslagsbreytinga liggi á að planta trjám til að binda meira kolefni. Ljósmynd: Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Ísland og loftslagsmál er fjallað um möguleika til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda til að ná þeim markmiðum sem landið hefur gengist undir. Þar kemur skýrt fram að aukin kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu spilar lykilhlutverk í að gera Íslandi kleift að ná markmiðum sínum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Mikilvægi kolefnisbindingar verður enn meira þegar markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi 2040 er tekið inn í dæmið.

Skógfræðingarnir Arnór Snorrason og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir skrifuðu saman grein í Skógræktarritið þar sem árleg kolefnisbinding eins hektara (100 x 100 metra svæði) af algengustu trjátegundum á Íslandi er meðal annars tekin saman. Bindingin er mæld í tonnum af koldíoxíði (CO2) á hektara á ári að meðaltali á líftíma skógarins.

Alaskaöspin bindur mikið

„Gróskustig trjátegundanna er mismunandi. Það er meðal annars metið með því að skoða hvað hæðarvöxturinn er mikill. Trjátegundir eins og alaskaösp og sitkagreni hafa hæsta gróskustigið. Þú sérð það þegar þú gengur um Reykjavík eða einhvers staðar í skógrækt að þessar tvær trjátegundir standa upp úr öllum öðrum, þær eru langhæstar,“ segir Arnór.

Alaskaösp 16,2
Sitkagreni 8,3
Stafafura 7,0
Rússalerki 7,2
Ilmbjörk 3,1

Tölurnar miðast við meðalgrósku

„Stafafuran og rússalerkið geta líka orðið hávaxnar en þær tegundir eru samt oftast lægri en alaskaöspin og sitkagrenið. Svo er íslenska birkið frekar lágvaxin trjátegund. Það er þess vegna ekki með mikla bindingu en er mjög notadrjúgt á margan hátt því það vex vel við erfið skilyrði.“

Alaskaöspin vex hratt og nær mikilli bindingu á stuttum tíma. Ljósmynd: Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Arnór tekur fram að bindingin í töflunni á bara við um bindingu í trjám. Síðan bætist við það einhver jarðvegsbinding á þurrlendi og hugsanlega losun á framræstu mýrlendi. Framræst land er þó sjaldgæft í skógrækt á Íslandi eða um 7% af flatarmáli skógræktar. Stefnt er að því að auka hlutfall alaskaaspar og birkis á næstu árum.

„Hlutfallið skiptir miklu máli upp á heildarbindinguna. Ef við erum með meira af alaskaösp og minna af trjám sem binda lítið þá eykst bindingin. Kosturinn við alaskaösp er að lotulengdin er stutt, það er tíminn sem tekur tréð að vaxa. Alaskaöspin nær því mikilli bindingu á stuttum tíma,“ útskýrir Arnór.

Hann segir að vegna loftslagsbreytinganna liggi okkur á og því gæti borgað sig að fara yfir í að planta eins miklu og hugsast getur af alaskaösp til að auka bindingu. Án þess þó að draga úr birki. „Við viljum alltaf halda birki í 30% eins hefur verið undanfarna áratugi. Fyrir utan það að vera íslensk tegund hefur það reynst vera mjög duglegt að festa rætur á örfoka landi eins og til dæmis í nágrenni Heklu.“

Erfitt að áætla kostnað

Í skýrslu um loftslagsmál sem gefin var út á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2017 kemur fram að hver ferkílómetri af nýræktuðum skógi kostar um 35 milljónir króna (á verðlagi frá árinu nóvember 2015). Þar er allur beinn kostnaður tekinn með. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði óbreyttur til frambúðar og að engin stærðarhagkvæmni náist með auknu umfangi. Þar segir að á móti kostnaðinum komi tekjur vegna skógarhöggs, 13.900 krónur á hvern rúmmetra viðar. Í skýrslunni er miðað við 5% reiknivexti á bæði nettókostnað og á bindingu gróðurhúsalofttegunda, sem Arnór telur að séu nokkuð háir viðmiðunarvextir í dag og því gæti kostnaðurinn verið lægri.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram kostnaður við að binda hvert tonn af CO2 í skógrækt sé um 2.500 kr. Þar sem stærstur hluti kostnaðar fellur til við gróðursetningu en binding CO2 á sér stað árum og áratugum síðar er erfitt að áætla nákvæman kostnað. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að ef reiknivextir eru 4% er kostnaðurinn við að binda hvert tonn af CO2 um 1.500 krónur og ef reiknivextir eru 3% er kostnaðurinn um 500 krónur. Val á reiknivöxtum hefur því mikið að segja þegar kostnaður á hvert bundið tonn er áætlaður.

„Ef vextir eru lækkaðir verður skógrækt miklu hagkvæmari,“ segir Arnór. „Allt bendir til þess að verð á kolefnistonni hækki á næstu árum. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara að kaupa sér losunarheimildir eins og stóriðjan á Íslandi þarf gera í dag. Á hverju ári er losunarkvóti stóriðjunnar skertur. Ef iðjuverin ætla að halda sömu framleiðslu, sem þýðir sömu losun, þurfa þau að kaupa sér kvóta sem nemur skerðingunni. En hann verður sífellt dýrari. Það verður því sífellt óhagkvæmara fyrir stóriðjuna á Íslandi að halda sömu framleiðslu gangandi.“

Bindur um 10% af losuninni

Sitkagrenið verður hátt og gefur mikla bindingu.  Ljósmynd: Fréttablaðið/Sigtryggur AriSkógræktin safnar saman gögnum í árlega skýrslu Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

„Við erum með fasta mælifleti sem dreifðir eru um landið. Í ræktuðu skógunum heimsækjum við hvern mæliflöt á fimm ára fresti. Þannig að á hverju ári heimsækjum við 1/5 af mæliflötunum. Við fáum því niðurstöður um bindingu fyrir fimm ára tímabil. Þessar mælingar eru algjör grundvöllur fyrir að geta birt raunmat á bindingu,“ segir Arnór.

„Við byrjuðum að mæla árið 2005 og síðan þá hefur orðið meiri vöxtur og meiri binding í skógunum. Það eru komin vel yfir 300 þúsund tonn sem skógurinn er að binda á ári. Þannig að við erum að binda upp undir 10% af losun okkar mannanna.“

Arnór segir að stefnan sé að halda áfram að rækta nýja skóga til að ná sem mestri bindingu. „Skógræktin hefur ekki náð sér almennilega á strik eftir hrun. Við vorum að gróðursetja 6 milljónir plantna á ári fyrir hrun sem fór niður í 3 milljónir eftir hrun, en stefnan er að fara upp í 12 milljónir og ná því fyrir 2023.“

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson