Þrír starfsnemar frá Spáni taka á móti trjáplöntusendingu að Tumastöðum í Fljótshlíð. Ljósmynd: Hall…
Þrír starfsnemar frá Spáni taka á móti trjáplöntusendingu að Tumastöðum í Fljótshlíð. Ljósmynd: Hallur S. Björgvinsson

Gróðursetning trjáplantna á jörðum bænda er hafin á Suður- og Vesturlandi. Byrjað var að dreifa plöntum úr gróðrarstöðvum í byrjun mánaðarins. Þó má gera ráð fyrir að margir haldi að sér höndum um sinn vegna viðvarandi næturfrosts.

Dreifing skógarplantna frá gróðrarstöðvum verður gangi allan maímánuð og jafnvel eitthvað fram í júní. Reiknað er með að í bændaskógum vítt og breitt um landið verði gróðursettar um 2,8 milljónir plantna á þessu sumri og í öðrum verkefnum í þjóðskógum og samstarfsverkefnum Skógræktarinnar verði gróðursettar um 2 milljónir plantna. Ef við þetta er bætt gróðursetningu annarra aðila er ljóst að gróðursetning trjáplantna á Íslandi fer nú yfir fimm milljóna markið sem ekki hefur gerst frá því nokkru fyrir efnahagshrunið.

Það er því mikið um að vera nú á vormánuðum og starfsmenn Skógræktarinnar gera sitt besta til að láta allt ganga upp. Á myndinni að ofan má sjá þrjá spænska verknema á starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð taka við plöntusendingu frá Kvistum í Biskupstungum.

Skemmdar sitkagreniplöntur sem teknar hafa verið út í gæðaprófum Skógræktarinnar. Ljósmynd: Pétur HalldórssonUndanfarnar vikur hefur farið fram gæðamat Skógræktarinnar eins og segir frá í annarri frétt hér á skogur.is. Í ljós hafa komið töluverðar skemmdir á plöntum í gróðrarstöðvum, meðal annars vegna frosts, sem þýðir að endurskipuleggja þarf plöntudreifingu. Þetta getur þýtt einhverjar tafir á afhendingu trjáplantna.

Texti: Pétur Halldórsson