Tveir starfsmenn Mógilsár þeir Øyvind Meland Edvardsen og Stefán Freyr Einarsson hætta störfum hjá RSr á Mógilsá nú um mánaðarmótin. Hefur Øyvind tekið sér ársleyfi frá rannsóknum og tekur nú um mánaðarmótin við stöðu forstjóra Norsku fræstofnunarinnar í Hamri (Norsk skovfrøværk). Øyvind hefur á síðustu árum unnið að kvæmarannsóknum, m.a. stóru norrænu verkefni með fjallaþin, og hefur tekið þátt í uppbyggingu á aðstöðu til frostþolsprófana á Möðruvöllum í Hörgárdal. Stefán sem unnið hefur sem aðstoðarsérfræðingur við rannsóknir á skógræktarskilyrðum á Íslandi heldur til náms í spænsku í Barcelona. Skógrækt ríkisins þakkar þeim fórnfús og vel unnin störf á síðustu árum og óskar þeim velfarnaðar í nýjum störfum.