Starfsmenn NordGen koma í Haukadalsskóg. Hreinn Óskarsson tekur á móti hópnum úr rútunni.
Starfsmenn NordGen koma í Haukadalsskóg. Hreinn Óskarsson tekur á móti hópnum úr rútunni.

Sáu „alvöru skóg“

„Det är väl riktig skog.“ Þannig varð einum starfsmanna norræna genabankans NordGen á orði þegar gengið var inn í Haukadalsskóg í dag. Starfsmenn bankans eru í starfsmannaferð á Íslandi þessa dagana. Slíkar ferðir eru árlegar hjá starfsmönnunum og þá eru heimsóttar stofnanir sem bankinn þjónar í hverju landi fyrir sig eða skyldar stofnanir og samstarfsstofnanir og -fyrirtæki í öðrum löndum. Í fyrra var farið til Finnlands og þar áður til Englands þar sem hinir frægu konunglegu grasagarðar Kew Gardens voru sóttir heim. Þar er unnið mikilvægt starf til að varðveita erfðaauðlindir plantna frá öllum heimshlutum.

Í ferð starfsmanna NordGen til Íslands er m.a. litið inn hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni sem njóta þjónustu NordGen. Einnig tók Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, á móti hópnum í Haukadalsskógi sem er einn stærsti og merkasti skógur landsins. Þar hefur verið unnið kraftaverk við að breyta nær örfoka landi í gróskumikið skóglendi. Gestirnir frá NordGen höfðu skoðað íslenskan birkiskóg en fengu þarna að sjá hvernig rækta má afurðamikinn nytjaskóg á Íslandi með álíka mikilli eða jafnvel meiri viðarmyndun en fæst í skógum á sömu breiddargráðum í Skandinavíu.

Genginn var hringur í skóginum og litið á ýmsar trjátegundir sem þar vaxa. Rauðgreni er mjög áberandi í Haukadalsskógi en einnig lerki og stafafura og raunar flestar ef ekki allar trjátegundir og stór hluti kvæma sem reynd hafa verið í skógrækt á Íslandi. Best vex þó sitkagrenið af barrviðartegundunum og má sums staðar sjá sláandi mun á jafngömlu sitkagreni og rauðgreni. Sitkagrenitrén eru mun gildari og hærri en þó kom líka fram í máli Hreins að meðal þess sem reynt hefur verið í Haukadal sé rauðgrenikvæmi frá Sviss sem slagar vel upp í sitkagrenið í vexti.

Fullt af fróðleik um íslenska skógrækt hélt starfsfólk norræna genabankans á brott úr Haukadalsskógi, skoðaði því næst Gullfoss og Geysi og í fyrramálið heimsækja þau höfuðstöðvar Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Forstöðumaður NordGen er Árni Bragason, sem starfaði um árabil sem forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá. Hann segir að ferðir starfsmanna NordGen séu mikilvægar, bæði til að halda góðum tengslum við samstarfsfólk í viðkomandi landi og þær stofnanir sem bankinn þjónar en líka til að þjappa starfsfólkinu saman. Starfsmannavelta er nokkuð mikil hjá bankanum enda er hámarks ráðningartími starfsfólks átta ár. Því séu þessar ferðir gagnlegar svo allir kynnist sem best og geti starfað sem best saman. Á næsta ári segir Árni stefnt að því að starfsmannaferðin verði farin til Þýskalands.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson