Um 1.400 m3 af grisjunarviði úr íslenskum skógum afhentir Elkem í maí

Þessa dagana aka flutningabílar með grisjunarvið úr skógum landsins að Grundartanga í Hvalfirði þar sem viðurinn er kurlaður og nýttur sem kolefnisgjafi við kísilmálmvinnslu hjá Elkem. Alls verða afhentir um 1.400 rúmmetrar af grisjunarviði nú í maímánuði upp í samning Skógræktar ríkisins við Elkem. Inni í þessari tölu er stærsta viðarsendingin af Norðurlandi hingað til.

Meðfylgjandi myndir voru teknar 8. maí á Vöglum á Þelamörk í Hörgárdal þar sem er myndarlegur skógur í umsjón Skógræktar ríkisins. Talsverður hluti þessa skógar hefur náð þeim aldri að komið sé að fyrstu meiri háttar grisjuninni, sem farið er í eftir um 25 ár frá gróðursetningu. Um 240 rúmmetrar af trjáviði fara frá Vöglum í þetta skiptið og þetta mun vera stærsta einstaka viðarafhendingin af Norðurlandi hingað til. Mikið er þó ógrisjað enn á Vöglum. Að norðan koma líka 40 rúmmetrar úr skógum Skógræktarfélags Eyfirðinga í þetta sinn, samtals um 280 m3

Gjöfulastir eru þó sem oftar skógarnir á Austurlandi og Suðurlandi. Ríflega 500 m3 verða afhentir úr hvorum landsfjórðungi nú í maí. Grisjunarvélin öfluga sem nýlega var tekin í notkun á Austurlandi verður að störfum vítt og breitt um landið á komandi mánuðum, til dæmis bæði í Skorradal og á Norðausturlandi. Því má búast við að myndarlegir viðarstaflar hlaðist upp víða og beri þannig vitni um vaxandi skógarauðlind Íslendinga.

Á efstu myndinni má sjá tvenns konar við úr skóginum á Vöglum á Þelamörk, vinstra megin greniboli og hægra megin lerkiboli. Bræðurnir Teitur og Valgeir Davíðssynir, starfsmenn skógarvarðarins á Norðurlandi, unnu við að ferma flutningabílinn ásamt bílstjóra frá Landflutningum. Fleiri myndir frá þessari viðarfermingu má sjá hér.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson