Störf þriggja verkefnisstjóra eru nú laus til umsóknar hjá Skógræktinni. Verkefnisstjóra kolefnisverkefna er ætlað að vinna áfram að þróun vottunarferla og hafa umsjón með kolefnisverkefnum. Í öðru lagi er starf verkefnisstjóra samstarfsverkefna með Landgræðslunni og fleiri aðilum. Þriðji verkefnisstjórinn á að vinna að þróun stafrænna lausna sem tengjast skógrækt og sjá um skipulag og framkvæmd plöntuflutninga.

Skógræktin leitar með þessu að öflugu starfsfólki til að vinna að uppbyggingu skógarauðlindar á Íslandi, vernd og friðun skóga og til að efla hagrænan, umhverfislegan og samfélagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu skóga. Kolefnisverkefni eru vaxandi þáttur í starfsemi Skógræktarinnar, ekki síst í takti við vaxandi áherslu íslenskra stjórnvalda á aðgerðir í loftslagsmálum. Jafnframt eru að aukast samstarfsverkefni um aukna útbreiðslu skóga, ekki síst til að stækka birkiskóga landsins. Stærst þeirra verkefna er Hekluskógaverkefnið en í anda þess er nú horft til fleiri stórra svæða á landinu þar sem áður uxu birkiskógar og mikilvægt þykir að koma þeim upp á ný. Þá er innleiðing á ýmiss konar stafrænni tækni aðkallandi hjá Skógræktinni, meðal annars í tengslum við starf hins opinbera að hinu svokallaða Stafræna Íslandi. Fram undan er að færa ýmsa ferla Skógræktarinnar inn í þetta kerfi og auka þar með og bæta þjónustu stofnunarinnar, ekki síst við skógarbændur og aðra skógræktendur. Með þessu opnast ýmsir möguleikar, meðal annars á betra fyrirkomulagi ýmissa umsókna, auk þess sem hægt er að gera ýmis gögn aðgengilegri þeim sem þau tilheyra, meðal annars gögn um einstök skógræktarverkefni, áætlanir, kortagögn og fleira.

Skannaðu QR-kóðannNánari upplýsingar um störfin er að finna á  Starfatorgi og á vef Skógræktarinnar, skogur.is/atvinna. Einnig má skanna kóðann hér til hægri til að nálgast upplýsingar og sækja um.

Markmið Skógræktarinnar er að stofnunin sé eftirsóttur vinnustaður fyrir starfsfólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Þá sé starfsmönnum búin góð vinnuaðstaða, greiður aðgangur að upplýsingum og fjölbreyttir möguleikar á símenntun sem stuðli að starfsþróun og verðmætasköpun innan Skógræktarinnar og skógræktargeirans alls. Skógræktin hefur hlotið jafnlaunavottun, innleitt styttingu vinnuvikunnar og græn skref í ríkisrekstri. Þá hefur stofnunin sett sér umhverfis- og loftslagsáætlun með tíma- settum markmiðum ásamt áætlunum um réttindi, vernd og ábyrgð starfsfólks, s.s. áætlanir um áreitni og einelti ásamt viðbrögðum við slíku.

Laus störf

Texti: Pétur Halldórsson