Læra má um allt frá ræktun til umhirðu og viðarnytja

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands hefur kynnt námskeið sem í boði verða á vorönn. Þar á meðal eru nokkur námskeið sem tengjast skógrækt og skógarnytjum.

Seinni hluta janúarmánaðar verður nám­skeið um trjáfellingar og keðjusög að Reykjum í Ölfusi. Það hentar þeim sem ekkert kunna á keðjusagir og vilja læra á þær. Einnig þeim sem hafa notað keðju­sagir en vilja bæta fellingartækni sína eða vilja öðlast meiri þekkingu á meðferð og umhirðu saga. Hámarksfjöldi þátttakenda er 12 og kennari verður Björgvin Eggerts­son skógfræðingur.

Námskeiðin Húsgagnagerð úr skógarefni I og II fara fram að Snæfoksstöðum í Grímsnesi, það fyrra í mars og það síðara í apríl. Þessi námskeið eru haldin í sam­vinnu við IÐUNA fræðslusetur og henta t.d  smíðakennurum, almenn­um kennurum, sumarbústaðafólki, skógareigendum, skógræktarfólki, handverksfólki og öðrum er vilja læra hvernig hægt er að smíða úr því efni sem fellur til við grisjun. Kennarar verða Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar­innar og verkefnisstjóri Lesið í skóginn, og Ólafur G.E. Sæmundsen skógtæknir.

Í mars verður líka haldið námskeið að Reykjum í Ölfusi þar sem Jón Kristófer Arnarson kennir fólki að rækta berja­runna, hvernig skuli staðið að útplöntun þeirra með tilliti til sem mestrar uppskeru og fleira.

Ágústa Erlingsdóttir, skrúðgarðyrkjumeistari og brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar við LbhÍ, kennir líka á námskeiði í marsmánuði. þar verður farið yfir helstu atriði sem snerta klippingu á trjám og runnum og hvernig meta skuli ástand trjáa og runna.

Ólafur Oddsson kennir í apríl á hinu sívinsæla námskeiði Tálgun I. Það verður að þessu sinni haldið að Reykjum í Ölfusi. Kennd verða öruggu hnífsbrögðin, fjallað um íslenskar viðartegundir, tálgun nytjahluta og skrautmuni úr efni sem almennt er kallað „garðaúrgangur“. Nemendur læra að grisja tré, umgangast bitáhöldin og lesa í skógarefnið.

Loks er vert að nefna að í lok apríl hefst námskeiðsröðin Grænni skógar I og verða námskeiðin ýmist haldin á Hvann­eyri eða Reykjum í Ölfusi. Á námskeiðunum er fjallað um mörg af grunnatriðum skógræktar, m.a. val á trjátegundum, skógarhönnun og landnýtingaráætlanir, undirbúning lands fyrir skógrækt, framleiðslu og gróðursetningu skógar­plantna, skógarumhirðu, skógarnytjar, sjúkdóma og skaða í skógi, skjólbelti, skógarhöggstækni og verndun fornminja og náttúru í skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur vikuferð til útlanda verið hluti af náminu þar sem þátttakendur kynnast því helsta sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera í skógrækt.

Nánar má kynna sér námskeiðin á viðburðasíðu Skógræktarinnar og á vef Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands.