Græn og falleg furuplanta í svörtum sandinum á Hafnarsandi í Ölfusi
Græn og falleg furuplanta í svörtum sandinum á Hafnarsandi í Ölfusi

Sænskt úrvalsefni af stafafuru og skógarfuru prófað á Íslandi

Sænskur úrvalsefniviður af stafafuru og skógarfuru hefur verið settur niður í tilraunareitum á 12 stöðum hringinn í kringum landið. Markmiðið með tilrauninni er að finna efnivið sem hentar í skógrækt hérlendis og ef það tekst getur sparast áratuga vinna í kynbótum fyrir timburskógrækt með furu. Tilraunin er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna en Brynjar Skúlason, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar, hefur umsjón með verkefninu. 

Svíar hafa lengi unnað að umfangsmiklu kynbótastarfi á báðum þessum tegundum, stafafuru og skógarfuru. Áratugi tekur að ná fram kynbættum plöntum á borð við þann efnivið sem notaður er í tilrauninni og því væri mikill ávinningur fólginn í því fyrir íslenska timburskógrækt að geta sparað sér þann tíma, kostnað og fyrirhöfn. Sænski efniviðurinn er nú ræktaður í frægörðum vítt og breitt um Svíþjóð og ber hver klónn nafn viðkomandi frægarðs. Til samanburðar voru einnig gróðursett nokkur kvæmi af stafafuru sem reynst hafa vel í skógrækt víða á Íslandi og eitt finnskt kvæmi af skógarfuru. Eftirfarandi tafla sýnir hvaða efniviður fór út í tilrauninni:

    Upplýsingar um frægarð

 

Efniviður

 

Nafn

 

Trjátegund

Upprunaleg

breiddargráða

Breiddar-

gráða

H.y.s.

(m)

Stærð (ha) Fjöldi klóna
Frægarður Närlinge Stafafura 60°00' 35 18,3 100
Frægarður Oppala Stafafura 60°48' 20 12,7 211
Frægarður Skörserum Stafafura 58°00' 75 18,2 210
Frægarður Larslund Stafafura 58°48' 50 15,1 178
Frægarður Rumhult Stafafura 57°24' 100 20,7 214
Kvæmi Skagway Stafafura 59°27' Íslenskt fræ
Kvæmi Tutshi Lake Stafafura 59°56' Innflutt fræ
Kvæmi Watson Lake Stafafura 60°03' Innflutt fræ
Kvæmi Carcross Stafafura 60°17' Innflutt fræ
Frægarður Drögsnäs Skógarfura 60°00' 59°12' 80 5 33
Frægarður Alvik Skógarfura 67°30' 63°47' 5 39 82
Frægarður Gnarp Skógarfura 62°30' 62°03' 45 21 67
Frægarður Slåttholmen Skógarfura 66°00' 62°32' 5 15 213
Frægarður Västerhus Skógarfura 63°30' 63°19' 15 14 28
Kvæmi Pyhäjärvi Skógarfura 63°41'


Klónarnir úr frægörðunum hafa flestir verið afkvæmaprófaðir og ættu því nokkuð örugglega að vera umtalsvert betri til timburframleiðslu en upphaflegi stofninn.  Þegar úrvalstré eru valin og afkomendur þeirra metnir er litið til lífsþróttar, framleiðni, viðargæða og aðlögunarhæfni.  Í hverri kynslóð má vænta um 10-20% aukningar í viðarvexti að jafnaði.

Í tilraunireitina var ýmist gróðursett á löndum Skógræktar ríkisins eða hjá skógarbændum sem eru þátttakendur í Landshlutaverkefnunum. Hér sjást furuplöntur að lokinni gróðursetningu á Hafnarsandi í Ölfusi.

Jörð Landshluti Umsjón
Belgsá í Fnjóskadal Norðurland Skógrækt ríkisins
Stóru Hámundarstaðir við Eyjafjörð Norðurland Norðurlandsskógar
Grund í Vesturhópi Norðurland Norðurlandsskógar
Rauðsgil í Hálsasveit Vesturland Vesturlandsskógar
Vörðufell á Skógarströnd Vesturland Vesturlandsskógar
Lækur í Dýrafirði Vestfirðir Skjólskógar
Hafnarsandur í Ölfusi Suðurland Skógrækt ríkisins
Snæfoksstaðir í Grímsnesi Suðurland Suðurlandsskógar
Giljaland í Skaftártungu Suðurland Suðurlandsskógar
Óseyri við Stöðvarfjörð Austurland Héraðs- og Austurlandsskógar
Höfði á Völlum Austurland Skógrækt ríkisins
Droplaugarstaðir í Fljótsdal Austurland Héraðs- og Austurlandsskógar

Stafafura hefur vaxið áfallalítið um land allt og er áhugaverður valkostur í þurru mólendi og einnig þar sem er talsverð frosthætta á vaxtartíma. Á svæðum þar sem rússalerki hentar illa gæti stafafura verið góður valkostur í rýru mólendi.  Sjúkdómar eða skordýr hrjá yfirleitt ekki stafafuru. Sum vor er barrsviðnun áberandi en oftast sleppa brumin og trén jafna sig þegar líður á sumarið þannig að skemmdirnar hverfa smám saman.

Fylgst verður með lifun og vexti í tilrauninni næstu árin og verður spennandi að sjá hvort eitthvað af þessu kynbætta úrvalsefni stendur sig betur en gömlu kvæmin.  Bestu einstaklingar tilraunarinnar gætu orðið grunnurinn að okkar eigin kynbótaefni í furu. Víst er að plönturnar, sem allar voru ræktaðar upp af fræi hjá Sólskógum á Akureyri, voru hraustlegar að sjá í bökkunum eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru 12. júní. Þá þegar voru komnir mjög myndarlegir árssprotar sem ber vott um mikinn vaxtarþrótt. Síðan á eftir að koma í ljós hvernig viðkomandi klónar spjara sig við íslenskar aðstæður.



Texti: Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson
Myndir úr Sólskógum í Kjarnaskógi: Pétur Halldórsson
Myndir af Hafnarsandi: Aðalsteinn Sigurgeirsson