Björn Bjarndal Jónsson, verkefnastjóri afurða- og markaðsmála hjá Skógræktinni, afhendir Sóleyju Elí…
Björn Bjarndal Jónsson, verkefnastjóri afurða- og markaðsmála hjá Skógræktinni, afhendir Sóleyju Elíasdóttur, stofnanda Sóleyjar Organics, samninginn undirritaðan af Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra. Ljósmynd: Vala Steinsdóttir

Nýlega var undirritaður samningur milli Skógræktarinnar og snyrtivöruframleiðandans Sóleyjar Organics sem felur í sér að sótt verður um lífræna vottun þeirra skógasvæða Skógræktarinnar sem fyrirtækið sækir hráefni í.

Samningurinn gengur út á að Skógræktin veitir Sóley Organics heimild til að sækja um lífræna vottun hjá Vottunarstofunni Túni á ákveðnum skógum eða landsvæðum sem eru í umsjón Skógræktarinnar. Jafnframt veitir Skógræktin fyritækinu leyfi til að sækja þar og nýta til starfsemi sinnar jurtir og plöntur ásamt greinum af birki og víði. Einnig fær Sóley Organics að nýta það sem til fellur við grisjun birkis ef henta þykir.                               

Sóley Organics ber allan kostnað af vottun viðkomandi skóga eða landsvæða greiðir Skógræktinni fast gjald árlega fyrir samninginn, auk fasts verðs  fyrir hvert kíló af hráefni sem aflað er úr skógum Skógræktarinnar. Samningurinn gildir til ársins 2038.  Í honum felst ekki einkaleyfi Sóleyjar Organics á nýtingu plantna á svæðum Skógræktarinnar.

Fyrirtækið gerir þennan samning til  að tryggja og undirbúa fyrirhugaða aukningu á framleiðslu sinni. Vala Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Sóley Organics, segir í frétt um samninginn á vefmiðlinum Pressunni að þarna sé verið að nýta skógana á ábyrgan hátt með lífrænni vottun og um leið tryggi fyrirtækið sér jurtir um komandi ár. Fram kemur að fjölskylda þeirra sem að fyrirtækinu standa, vinir og starfsfólk, komi saman og tíni villtar jurtir á vottuðum svæðum. Vörurnar eru framleiddar á Grenivík og í þeim eru villtar og kraftmiklar íslenskar jurtir á borð við birki, víði, vallhumal og sortulyng.

Texti: Pétur Halldórsson